250 þúsund í bætur vegna ummæla á Facebook

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann til að greiða fyrrverandi tengdadóttur sinni 250 þúsund krónur í miskabætur vegna meiðandi ummæla á Facebook.

Konan höfðaði málið í nóvember í fyrra og krafðist þess að dæmd yrðu ómerkt ummæli hans, m.a. um að hún ætti við geðræn vandamál að stríða og geti verið hættuleg öðrum, sérstaklega börnum, og að hún væri ofbeldismanneskja. Krafðist hún einnar og hálfrar milljónar króna í miskabætur.

Áður en maðurinn lét ummælin falla á Facebook ætlaði hann með syni sínum og ellefu ára barnabarni í frí til útlanda.

Fyrir brottför upplýsti konan föður barnsins að hún heimilaði honum ekki að fara með það úr landi. Föðurfjölskyldan fór því í fríið en barnið varð eftir hjá móður sinni.

Maðurinn sagði fyrir dómi að konan hefði ítrekað komið í veg fyrir eða torveldað að barnið kæmist í frí erlendis með föður sínum og föðurfjölskyldu.

Gekk of langt með ummælunum

„Með umdeildum ummælum gekk stefndi lengra en tjáningarfrelsi hans heimilar honum og braut gegn rétti stefnanda til friðhelgi einkalífs og æruverndar. Sú háttsemi er til þess fallin að valda stefnanda miska. Þá verða skilaboðin sem stefndi sendi stefnanda örskömmu áður en hann lét ummælin falla ekki skilin á annan veg en þann að tilgangur þeirra hafi verið að skaða stefnanda,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert