Ég efaðist aldrei um guð

Karl Sigurbjörnsson segir það hafa verið sína köllun að þjóna …
Karl Sigurbjörnsson segir það hafa verið sína köllun að þjóna sem biskup yfir Íslandi. Hann gegndi því starfi í fjórtán ár og segir þau ár hafa verið bæði yndisleg og ömurleg. mbl.is/Ásdís

Það skiptast á skin og skúrir rétt eins og í lífinu sjálfu daginn sem blaðamaður bankar upp á hjá Karli Sigurbjörnssyni biskupi. Hann býður til stofu, skenkir kaffi í fallegan bolla og opnar lítinn konfektkassa gestinum til heiðurs. Karl hefur yfir sér rólegt yfirbragð, talar á lágu nótunum og það er stutt í brosið. Hann gæðir sögur sínar lífi þannig að manni finnst maður næstum staddur með honum langt aftur í fortíðinni.

Númer sex af átta

„Ég bjó við Freyjugötuna fyrstu árin. Ég er sjötti í röðinni af átta systkinum. Það eru einhver fræði um það hvernig það mótar persónu fólks hvar maður er í systkinaröðinni. Það er ljóst að númer sex af átta hefur fengið mikla afganga af öllu,“ segir Karl og skellir upp úr.

Það var að vonum líf og fjör á stóru heimili og þröngt máttu sáttir sitja.

„Ég man ekki eftir að við höfum öll verið heima á sama tíma því þau elstu voru að fara að heiman þegar ég man eftir mér. En ég man að ég öfundaði mikið Jóhann vin minn sem bjó beint á móti; hann var eina barnið á heimilinu. En hann sagði mér einhvern tímann að hann hefði öfundað mig, því það hljóti alltaf að hafa verið líf og fjör á mínu heimili,“ segir hann og brosir.

Óþægilegt að vera sonur biskups

Karl var sendur í sveit á Stokkseyri níu ára gamall. „Það var harður en gríðarlega góður skóli. Ég var settur upp á traktor tíu ára, eins og tíðkaðist á þessum tíma,“ segir hann.

„Ég rak kýrnar, gaf hænsnum, mokaði flórinn og passaði krakka. Ég fann mikið til mín; fannst ég vera mikilvægur. Maður var látinn axla mikla ábyrgð. Og þótt þetta hafi verið ævintýri var maður oft ofboðslega þreyttur; stundum örmagna. En þetta var dýrmætur skóli,“ segir Karl.

Á þessum árum var faðir Karls, Sigurbjörn Einarsson, guðfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Móðir hans, Magnea Þorkelsdóttir, var heimavinnandi og hélt utan um þetta stóra heimili af einstakri umhyggju, að sögn Karls.

Sigurbjörn var skipaður biskup árið 1959, þegar Karl var tólf ára, og við það breyttist ýmislegt í lífi hans.

Karl fetaði í fótspor föður síns, Sigurbjörns Einarssonar, biskups.
Karl fetaði í fótspor föður síns, Sigurbjörns Einarssonar, biskups. mbl/Kristinn Ingvarsson

Hvernig var að vera unglingur og eiga föður sem var biskup?

  „Mér fannst það oft frekar óþægilegt. En auðvitað fannst manni það líka merkilegt. Ég var alltaf stoltur af föður mínum. En ég átti ekki gott með það að vera í sviðsljósinu,“ segir Karl og segist hafa verið strítt vegna stöðu sinnar.  

„Mér tókst að loka á það og tók það ekki nærri mér. En ég man að þegar ég var að vinna í garðyrkju á sumrin sem unglingur voru þarna karlar, barnaskólakennarar í sumarvinnu, sem þurftu einlægt að gera lítið úr kirkjunni, trúnni og biskupnum. Auðvitað væri þetta kallað einelti í dag. Ég svaraði þeim ekki, dró mig bara inn í skel.“

Ætlaði að verða arkitekt

Karl fékk að sjálfsögðu mjög trúarlegt uppeldi.

„Ég var mjög trúhneigt barn. Ég tók það inn með móðurmjólkinni. Ég fór í KFUM hálftvö á sunnudögum og svo í þrjúbíó, og auðvitað í messu um morguninn. Það var alltaf bara sjálfsagt og aldrei nein kvöð. Auðvitað leiddist mér stundum í messu. Ég vissi nákvæmlega hvað voru margar ljósaperur í litla messusalnum í Hallgrímskirkju. Ég var búinn að telja það oft og mörgum sinnum. Þær voru ansi margar,“ segir Karl og hlær.

Karl segist hafa verið afar stilltur unglingur.

„Ég fór aldrei í neina uppreisn.“

Efaðist þú aldrei um trú þína?

„Jú, ég efaðist oft um trú mína, en ég efaðist aldrei um guð.“

Karl fór í Menntaskólann í Reykjavík og segist hafa verið ákveðinn í því að verða arkitekt.

„Ég sat löngum stundum á Ameríska bókasafninu og las bækur um arkitektúr og var að teikna. En ég var voðalega lélegur í stærðfræði! Ég bara þoldi hana ekki,“ segir hann og hlær.

Hann segist hafa gert sér grein fyrir að arkitekt þyrfti að kunna stærðfræði og því hentaði arkitektúr líklega ekki.

„Svo togaði kirkjan í mig.“

Eldskírn í Eyjum

Eftir menntaskóla fór Karl í guðfræði í Háskólanum og fann þar fljótt að hann væri á réttri hillu.

„Ég skal þó viðurkenna að fyrsta veturinn hugsaði ég: „Hvað í ósköpunum er ég að gera hér?““ segir hann og hlær.

Árið 1970 kvæntist hann konu sinni til fimmtíu ára, Kristínu Þórdísi Guðjónsdóttur.

Kynntist þú konu þinni í Háskólanum?

„Nei, við sáumst nú fyrst sem krakkar á Stokkseyri, en hún er fædd og uppalin þar, í Móhúsum. Ég var snemma svolítið veikur fyrir henni,“ segir Karl og brosir.

„Og svo vorum við að rekast hvort á annað í Reykjavík, en hún flutti í bæinn um fermingu. Svo var það nú ekki fyrr en löngu seinna að við fórum að vera saman, en við vorum að fagna fimmtíu ára brúðkaupsafmæli í vetur. Þetta er langur tími en ótrúlega stuttur þegar maður lítur um öxl. Tíminn er svo dæmalaut skrítið fyrirbæri,“ segir Karl en þau hjón eiga þrjú börn og átta barnabörn.

„Það er lífsgæfan mesta.“

Eftir háskólann, í febrúar 1973, var Karl ráðinn sem prestur Vestmannaeyinga sem hrakist höfðu að heiman vegna eldanna í Heimaey. Fyrst um sinn sinnti hann „flóttafólkinu“ í Reykjavík og nágrenni en flutti svo til Vestmannaeyja um leið og hægt var eftir gos. 

„Ég flutti þangað í öskuna, síðsumars 1973. Það var allt á kafi í ösku og fólkið var að flytja heim, fiskvinnsla og önnur atvinnustarfsemi að hefjast á ný. Þetta var magnað en líka skelfilegt. Við vorum þarna undir rjúkandi eldfjallinu og brennisteinsfnykinn lagði yfir byggðina. Ef Skólavörðuholtið var háskólinn þá var þetta doktorsprófið, mikil eldskírn. Þetta var eins og að vera á vígstöðvum. Það var allt meira og minna í rúst og allt kolsvart af ösku, en gríðarlegur kraftur og hugur í fólkinu. Þarna ríkti ógleymanlegur endurreisnarkraftur. Við fórum strax að boða til messu og ég held það hafi verið afar mikilvægt því á þessum tíma var ekkert til sem heitir áfallahjálp,“ segir hann og segir bænina og samkenndina hafa hjálpað fólki að vinna úr sorginni.

Illska og reiði verst

Eftir dvölina í Vestmannaeyjum lá leiðin á gamlar slóðir, Skólavörðuholtið, en Karl var þá skipaður í embætti prests í Hallgrímskirkju.

„Kirkjan var í smíðum og þarna var annars konar uppbygging í gangi en í Eyjum, en kirkjan hafði þá verið í smíðum í þrjátíu ár,“ segir hann.

Karl segist alltaf hafa fundið sig vel í starfi prests þótt oft væri það erfitt og krefjandi.

„Ég var alltaf á vaktinni. Landspítalinn fylgdi með og ég var á útkallsvakt. Ég var oft kallaður út um miðjar nætur að skíra börn sem voru í lífshættu eða koma að dánarbeði. Maður var ungur þá og þoldi þetta vel. Ég var líka svo lánsamur í starfi að njóta stuðnings konu minnar og barnanna í öllu. Ég man varla eftir einni einustu guðsþjónustu sem þau voru ekki viðstödd.“

Hvað er það erfiðasta við starfið?

„Ég kom oft inn í skelfilegar aðstæður og þá er maður ótrúlega lítill og vanmáttugur. En ég hef alltaf undrast þann styrk sem fólk sýnir í hræðilegustu aðstæðum. Oft var samt erfiðast að takast á við aðstæður þar sem voru deilur og illindi í fjölskyldum. Illska og reiði fólks er miklu erfiðari viðfangs en sorgin. Og að sjá börn í ömurlegum aðstæðum. Það tók líka mikið á að þurfa að fara á vökudeild og skíra lítil veik börn, sem síðan dóu. Þá kom maður heim örmagna og tók utan um börnin sín.“

Yndisleg og ömurleg ár

Í fjórtán ár, frá 1998 til 2012, gegndi Karl starfi biskups og fetaði þar með í spor föður síns.

Var það eitthvað sem þú sást fyrir þér?

„Nei,“ segir hann og hlær.

„Ég sá það aldrei fyrir mér! Það er alveg áreiðanlegt að mér fannst ég ekkert hafa í það. En svo er manni beint inn á einhverja braut og fær áskorun frá fólki sem maður virðir og treystir og það kallast köllun.“

Hvernig voru þessi ár?

„Þau voru yndisleg og þau voru ömurleg. Yndislegast var að kynnast ótrúlega mörgu góðu fólki um land allt, í kirkjum og söfnuðum landsins. Það stendur upp úr. Svo voru erfið mál sem dundu á og urðu að lokum til þess að mér var ófært að starfa,“ segir hann án þess að hann vilji fara nánar út í það.

„Mér fannst einnig afskaplega sorglegt þegar hrunið varð og kirkjunni var settur stóllinn fyrir dyrnar. Það var skorið niður og það þurfti að segja upp fólki; mörgu góðu fólki,“ segir hann og segir það hafa fengið mjög á sig.

Þegar Karl lét af embætti biskups tók hann við starfi sem afleysingaprestur í Dómkirkjunni.

„Það voru alveg yndisleg ár með dásamlegu fólki. Þetta átti í upphafi að vera þrír mánuðir en það teygðist úr því,“ segir hann og hlær.

„Þetta endaði í fjórum árum, með hléum, en þá var ég orðinn sjötugur og þurfti að fara í erfiða meðferð,“ segir hann.

„Ég greindist árið 2017 með krabbamein í blöðruhálskirtli sem hafði dreift sér í beinin. Það var heilmikið áfall. Ég er búinn að horfa upp á fjóra bræður mína fara úr krabbameini. Fjórir af sex bræðrum,“ segir hann. Svo hefur dóttir mín verið að glíma við það sama þetta umliðna ár. Það er erfiðast af öllu,“ segir Karl.

„Ég var í lyfjameðferð í hálft ár og svo er ég núna á þriggja mánaða fresti í lyfjagjöf. Ég var ekki skorinn því það var ekki skurðtækt, en ég er í góðum höndum frábærra lækna og umvafinn umhyggju og fyrirbænum. Þetta er ekki læknanlegt. Ég er svona á skilorði,“ segir hann og brosir út í annað.

Hvernig líður þér í dag?

„Mér líður ágætlega í dag, ég get ekki kvartað. Maður á að líta á hvern dag sem gjöf og þakka fyrir það. Við vitum það með lífið, það endar bara á einn veg.“

Smekklaus skopmynd

Ég get ekki sleppt þér án þess að spyrja hvað þér fannst um teikninguna af trans-Jesú?

„Mér fannst þetta vægast sagt óþarfi og ég held að …
„Mér fannst þetta vægast sagt óþarfi og ég held að þetta hafi verið mistök, sem hefur nú reyndar verið viðurkennt og beðist velvirðingar á. Ég var sleginn, ég neita því ekki,“ segir Karl þegar spurður um myndina af trans-Jesú. mbl.is/Ásdís

„Mér fannst þetta vægast sagt óþarfi og ég held að þetta hafi verið mistök, sem hefur nú reyndar verið viðurkennt og beðist velvirðingar á. Ég var sleginn, ég neita því ekki. Í mínum huga er þetta skopmynd. Skopmyndir eiga alveg rétt á sér og sýna oft óvænt og skemmtilegt sjónarhorn. Það hefur verið bent á að í gegnum tíðina hafi mynd Jesú verið sýnd á alla mögulega vegu og stundum í pólitísku skyni. En allt á það sinn stað og sína stund. Þegar um er ræða boðun og fræðslu fyrir börn á þetta alls ekki við. Þarna er dansað á mörkum hins leyfilega og smekklega. Það er nefnilega það – þetta er smekklaust,“ segir Karl og segir eitt það allra mikilvægasta í starfi kirkjunnar vera að fræða börn um Jesú og sögu hans.  

Trúin styrkur í hörmungum

Talið berst að máli málanna; kórónuveirunni skæðu.

 „Við lifum á háskatímum. Við erum að horfa upp á svo margt bresta sem maður hefur sett sitt traust á. Við höfum lifað við það býsna lengi að finnast við hafa tök á þessu öllu saman. Að okkur séu allir vegir færir og að við getum skroppið þvert yfir heiminn ef okkur sýnist og að mannkynið sé að færast yfirleitt í rétta átt. Svo kemur þessi skellur; þetta er eins og heimsstyrjöld. Svo eru það afleiðingarnar, þær eru ófyrirsjáanlegar. Það er býsna svart fram undan og hvað höfum við þá að styðjast við? Við erum núna minnt á hversu ótrúlega varnarlaus við erum sem manneskjur, þrátt fyrir læknavísindin og það góða fólk sem vinnur vel og stendur í framlínunni hér hjá okkur. Þegar við stöndum andspænis óvissu, ótta, kvíða og öryggisleysi þá er mesti styrkurinn mannleg samlíðan, samstaða og samfélag. Við Íslendingar höfum stært okkur af því að eiga gott samfélag. Gott samfélag kemst í gegnum alla erfiðleika. En hvar er styrkur hins góða samfélags? Ég er alveg sannfærður um að það er trúin, vonin og kærleikurinn.“ 

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert