Hvar er Vala Flosa nú?

Vala og eiginmaður hennar, Magnús Hallgrímsson, búa í Lundi í …
Vala og eiginmaður hennar, Magnús Hallgrímsson, búa í Lundi í Svíþjóð, ásamt dætrunum Klöru, sjö ára og Emmu, níu ára. Ljósmynd/Aðsend

Við sem eldri erum gleymum ekki þeirri stund þegar hin 22 ára gamla Vala Flosadóttir afrekaði því næstum ómögulega; að vinna til verðlauna á sjálfum Ólympíuleikum, fyrst og ein íslenskra kvenna. Í grein í Morgunblaðinu 26. september, árið 2000, segist Vala að vonum vera ánægð.

Frjálsíþrótttakonan Vala Flosadóttir er þriðji Íslendingurinn sem vinnur til verðlauna …
Frjálsíþrótttakonan Vala Flosadóttir er þriðji Íslendingurinn sem vinnur til verðlauna á Ólympíuleikum. Á myndinnni má sjá verðlaunastökkið, en Vala stökk yfir 4,50 metra. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Svo sannarlega, hvern hefur ekki dreymt um að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum? Þetta hefur verið stórkostlegt kvöld sem líður mér aldrei úr minni. Þessi stund var og verður alveg sérstök í huga mér alla ævi.“ 

Frelsið á Íslandi

En hvar er Vala nú, tveimur áratugum síðar? Blaðamaður hafði uppi á henni símleiðis, en hún býr í Lundi í Svíþjóð ásamt manni sínum Magnúsi Hallgrímssyni og dætrunum Emmu og Klöru. Vala hefur búið meirihluta ævinnar í Svíþjóð, en þangað flutti hún með foreldrum sínum og yngri systur á unglingsaldri.  

Vala hefur í nógu að snúast en gaf sér tíma til spjalls til að segja frá því hvað hún sé að gera í dag og rifja upp daginn eftirminnilega; daginn sem hún beit í bronsið og brosti hringinn.  

„Ég var að skutlast með börnin á körfuboltaæfingar og er sest út í bíl. Nú hef ég smá stund aflögu til að spjalla,“ segir Vala á óaðfinnalegri íslensku.  

Vala, sem er fædd í Reykjavík og ættuð frá Egilsstöðum og Vestfjörðum, bjó sex ár á Bíldudal áður en hún flutti til Svíþjóðar og segist eiga góðar minningar úr æskunni.

„Þetta var litla Ísland og litla fiskiþorpið þar sem allir þekkja alla. Þarna var svo mikið frelsi sem börnin mín hafa ekki á sama hátt í dag. Við gátum hlaupið upp á fjöll og þrætt fjörur á milli fjarða. Ég æfði mikið íþróttir sem barn og fylgdi árstíðunum. Á sumrin voru það frjálsar og fótbolti og á veturna skíði og skautar. Ég var í öllu. Ég var heppin að ég virtist vera tiltæk í hvaða íþrótt sem er.“  

Alltaf Íslendingur í hjarta mínu

 „Ég flutti út þegar ég var fjórtán ára, en ég er alltaf Íslendingur í hjarta mínu. Auðvitað hef ég aðlagast sænsku samfélagi en ég er gift íslenskum manni og það er töluð íslenska á heimilinu,“ segir Vala og segist hafa kynnst manni sínum ung.  

„Ég fann hann í Svíþjóð í gegnum íþróttirnar en hann flutti út aðeins á eftir mér. Hann var einmitt líka á sömu Ólympíuleikum, árið 2000, og keppti í kringlukasti. Við eigum þessa sameiginlegu reynslu, að hafa keppt á Ólympíuleikunum árið 2000,“ segir Vala og segir þau hafa verið farin að rugla saman reitum um það leyti.  

Vala brosti hringinn þegar hún stóð á pallinum með bronsið …
Vala brosti hringinn þegar hún stóð á pallinum með bronsið um hálsinn. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Næstum fimm háskólagráður

Hvað gerir þú í dag?

 „Ég vinn sem bókaútgefandi og sé um útgáfu og þróun á námsefni fyrir háskólanám á heilsu- og heilbrigðissviði. Ég er sjúkraþjálfari að mennt og tók svo master í „sport medicine“ svo ég sletti nú ensku. Ég er svo með doktorsgráðu í „medical sciences“, sem gæti heitið heilbrigðisvísindi. Ég er næstum með fimm háskólagráður,“ segir Vala og hlær, og vitnar þar í Georg Bjarnfreðarson, sem Jón Gnarr lék svo eftirminnilega um árið.  

„Ég er rosalega þakklát fyrir að hafa fengið að njóta þess að hafa átt tvo ferla. Fyrst íþróttalífið og þann heim og svo fékk ég tækifæri til að mennta mig á öðru sviði eftir það. Ég hef fengið að njóta þess besta úr báðum þessum heimum.“

Dýrmæt reynsla

Núna er liðin tuttugu ár frá því að þú stóðst á palli í Sydney. Hvað stendur upp úr þegar þú hugsar tilbaka?

„Þetta var auðvitað ótrúlega dýrmæt reynsla, að hafa fengið að taka þátt í Ólympíuleikum. Ég man ég horfði á Ólympíuleika sem lítil stelpa. Þetta var draumur sem rættist; að fá að standa þar á palli. Það var hreint ótrúlegt og það tók mig smá tíma að meðtaka að þetta væri að gerast.“

Ætlar þú að halda upp á tímamótin?

„Ég mun að sjálfsögðu minnast þess vel og þá líka hversu mikinn stuðning ég fann allan minn feril frá Íslendingum, þótt ég byggi alltaf hér í Svíþjóð. Ég á svo hlýjar og góðar minningar um það. Þegar við fórum til Sydney var svo mikil samheldni í hópnum og þetta var svo skemmtilegur tími. Það er svo dýrmætt og ég vona að börnin mín og öll börn fái að upplifa að fylgja sínum draumum, hverjir sem þeir eru. Og hafa gaman að. Það er svo mikilvægt að fá tækifæri til að gera það sem manni þykir skemmtilegt og finna stuðning; ekki pressu, heldur stuðning.“ 

Vala, þú getur þetta!

Þegar þú fórst til Sydney, bjóstu við að vinna til verðlauna?

„Nei, ég get ekki sagt það. Það hafði verið mjög strembið tímabil á undan, um sumarið. Þetta var seint á tímabilinu en það gekk ótrúlega vel á æfingunum í Ástralíu fram að leikunum. Ég var með gott sjálfstraust og var dugleg að peppa sjálfa mig. Ég hafði lesið einhverja vísindagrein um að ef maður brosti við erfiða tilhugsun, þá gæti maður talið heilanum trú um að allt væri í lagi, þetta væri jákvætt. Þannig ég heilaþvoði sjálfa mig með því að brosa endalaust,“ segir hún og hlær.

Vala Flosadóttir nartar í bronspening sinn í Sydney.
Vala Flosadóttir nartar í bronspening sinn í Sydney. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Ég las í gömlum blaðagreinum að þú hafi þulið upp: Vala, þú getur þetta! Er það rétt?

„Já, ég talaði mikið við sjálfa mig fyrir hvert stökk allann minn keppnisferil. Ég sagði þá: „þú getur þetta, þú getur þetta!“

Hefurðu notað þetta í öðru sem þú hefur gert í lífinu?

„Já, þetta hefur síðan þá alltaf verið hluti af sjálfseflingu minni og hefur nýst mér vel í námi, kennslu og starfi. Líka bara í daglegu lífi. Ég segi þetta samt kannski ekki jafn upphátt lengur, heldur meira í hljóði með sjálfri mér.“ 

Ítarlegt viðtal við Völu er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »