Perlufesti lögð í Öskjuhlíðinni

Perlufestin. Efnisval og litasamsetning verða fengin úr Öskjuhlíðinni.
Perlufestin. Efnisval og litasamsetning verða fengin úr Öskjuhlíðinni. Tölvumynd/Landslag

Opnuð hafa verið hjá Reykjavíkurborg tilboð í stígagerð í norðvesturhlíð Öskjuhlíðar. Þessi stígur mun tengjast stígakerfi umhverfis Perluna, sem fengið hefur heitið Perlufesti, og verður ofarlega í Öskjuhlíðinni.

Mikil íbúðarbyggð er að rísa á Valssvæðinu á Hlíðarenda og mun nýi stígurinn stórbætta aðkomu íbúa hverfisins og annarra borgarbúa að útivistarsvæðinu í Öskjuhlíð. Fimm tilboð bárust í stígagerðina. Urð og grjót ehf. bauð lægst, krónur 74.270.120. Var það 82,81% af kostnaðaráætlun, sem var 89,6 milljónir.

Stígurinn sem um ræðir er upplýstur stígur sem liggja mun frá gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar að núverandi göngustíg norðan við Perluna. Stígurinn verður malbikaður og með snjóbræðslu. Trjágróður verður fjarlægður úr stígstæði, en grjóti og svarðlagi haldið til haga og notað á síðari stigum verksins. Framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út og verið er að vinna úr niðurstöðum útboðsins, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Stígarnir eru hluti af nýju heildarskipulagi fyrir Öskjuhíðina.

Tillaga Landslags ehf. hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um skipulag Öskjuhlíðar en úrslitin voru tilkynnt í október 2013. Tillagan var unnin af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt FÍLA, Sif Hjaltdal Pálsdóttur landslagsarkitekt FÍLA og Svövu Þorleifsdóttur landslagsarkitekt FÍLA.

„Við kunnum að meta Öskjuhlíðina eins og hún er og vildum því ekki fara í mjög róttækar breytingar heldur styrkja það sem er fyrir. Út frá því skoðuðum við hvernig mætti draga fram kosti svæðisins og laga gallana, t.d. passa upp á að gleyma ekki stríðsminjunum heldur gera þær sýnilegri,“ sagði Sif Hjaltdal við verðlaunaafhendinguna. Í tillögunni var m.a. lagt til að söguminjar yrðu verndaðar og gert hærra undir höfði með merkingum og fróðleiksskiltum. Víða í Öskjuhlíðinni er nú þegar að finna stíga og þeir munu halda sér í óbreyttri mynd að mestu.

Í niðurstöðu dómnefndar sagði að tillagan væri metnaðarfull með skýrri hugmynd þar sem stígar út frá Perlunni tengdu hana við Öskjuhlíðina og nærumhverfið, þannig að svæðið yrði öruggara og aðgengilegra öllum.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg liggur tímasetning framkvæmda við hringstíginn, hina eiginlegu perlufesti, ekki fyrir. Gert er ráð fyrir að það skýrist í þeirri fjárhagsáætlunarvinnu sem fram undan er og þá einnig hvort stígurinn verður lagður í áföngum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »