Áttatíu í sóttkví þegar mest lét

Smit á Reykjalundi gerðu að verkum að 80 starfsmenn fóru …
Smit á Reykjalundi gerðu að verkum að 80 starfsmenn fóru í sóttkví og hlé var gert á starfsemi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fimm manns smituðust af veirunni á Reykjalundi í síðustu viku, sem hafði þær afleiðingar að hlé var gert á meðferð og fóru 80 manns í sóttkví þegar mest lét. Starfsemin er hins vegar nú komin í gott horf og allir mættir aftur til vinnu, fyrir utan þá sem smituðust.

„Við erum með mjög strangar varúðarreglur þessa vikuna en starfsemin er núna nokkurn veginn komin á fullt, skulum við segja. Við hörmum auðvitað þau óþægindi sem þetta veldur sjúklingum okkar í mikilvægri meðferð,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar.

Hertar sóttvarnarráðstafanir fela í sér að starfsfólk fær ekki aðgengi að matsalnum þessa vikuna auk þess fjölmennir starfsmannafundir leggjast af í bili. Pétur vonast þó til þess að starfsemin geti farið í eðlilegt horf í næstu viku.

„Aðgerðirnar eru umfangsmeiri en það sem hefur verið síðustu viku en vonandi getum við verið með tilslakanir í næstu viku,“ segir Pétur. 

mbl.is