Einn í öndunarvél og fimm á sjúkrahúsi

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Fimm eru inniliggjandi á Landspítala með kórónuveiruna, þar af er einn í öndunarvél. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi almannavarna í dag. Hefur því fjölgað um einn á spítalanum frá því í gær. 39 smit greindust innanlands í gær og eru 492 nú í einangrun vegna veirunnar.

Alma Möller landlæknir segir að róðurinn sé að þyngjast á Landspítala. Auk þess að sinna tæplega 500 sjúklingum á göngudeild, séu nú á þriðja hundrað starfsmenn spítalans í sóttkví eða einangrun. Fresta hafi þurft skurðaðgerðum vegna álags, sem sé bagalegt.

Aftur á móti hefur ekki þurft að skerða aðra starfsemi spítalans og hvatti Alma fólk áfram til að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem það þyrfti á að halda, hvort sem væri vegna líkamlegra eða andlegra veikinda.

Alma minnti á að landlæknisembættið hefur eftirlitshlutverk með heilbrigðisstofnunum í landinu. Af þeim sökum hafi embættið nú sent út fyrirspurnir til allra heilbrigðisstofnana um mönnun, vinnuálag, birgðir, óvænt atvik, frestanir aðgerða, lokanir og fleira til að meta möguleg áhrif faraldursins á starfsemi. Það hafi einnig verið gert í fyrstu bylgju faraldursins.

Alls hafa 211 skráð sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar eftir að auglýst var eftir fólki á dögunum. Flestir hafa ekki áður starfað sem bakverðir, en um helmingur hefur boðist til að sinna covid-sjúklingum með einkenni. 

mbl.is