Ekki ástæða til að herða aðgerðir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Ekki er ástæða til að herða sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirunnar að svo stöddu. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi almannavarna í dag.

Þórólfur sagði tölur gefa til kynna að „samfélagsleg smit“ — þ.e. utan sóttkvíar — væru á hægri niðurleið en áfram mætti búast við smitum meðal fólks í sóttkví. Skynsamlegast væri því að herða ekki aðgerðir að svo stöddu, „þannig að við séum ekki að valda samfélagslegum skaða með aðgerðum,“ sagði Þórólfur. Benti hann enn fremur á að um tvær vikur tæki jafnan að sjá árangur af hertum sóttvarnaaðgerðum, en aðeins eru tíu dagar frá því aðgerðir voru síðast hertar.

34 af þeim 39 sem greindust með veiruna í gær voru í sóttkví við greiningu, en inni í þeirri tölu eru taldir skipverjarnir 14 af línuskipinu Valdimari GK. Sagði Þórólfur að þar sem þeir hefðu allir verið einangraðir og ekki í samskiptum við neinn utanaðkomandi mætti líta svo á að þeir hefðu verið í sóttkví við greiningu.

Þórólfur sagði enn fremur að búast mætti við að þær varúðarráðstafanir sem hamrað hafi verið á að undanförnu, myndu gilda næstu mánuði. „Ég vil annars þakka almenningi fyrir hversu vel hann hefur farið eftir þessum aðgerðum. En við megum ekki slaka á því þetta er alls ekki búið,“ sagði Þórólfur.

mbl.is