Jón Björn nýr bæjarstjóri Fjarðabyggðar

Jón Björn Hákonarson.
Jón Björn Hákonarson.

Jón Björn Hákonarson hefur tekið við starfi bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Jón er oddviti Framsóknarflokksins í bæjarfélaginu en flokkurinn myndar meirihluta í bæjarstjórn ásamt Fjarðalistanum.

Jón tekur við starfinu af Karli Óttari Péturssyni, en tilkynnt var um það í morgun að hann hefði látið af störfum að eigin ósk.

Jón hefur það sem af er kjörtímabili gegnt embætti forseta bæjarstjórnar, formennsku í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd og safnanefnd ásamt varaformennsku í bæjarráði. Lætur hann af öllum þessum störfum.

Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans, verður forseti bæjarstjórnar og formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar. Hún var áður formaður bæjarráðs en við því tekur Sigurður Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert