Með stórt sverð innanklæða

mbl.is/Eggert

Lögreglu barst tilkynning um mann með þrjár ferðatöskur og bakpoka í miðborginni á öðrum tímanum í nótt. Þegar lögregla hafði afskipti af manninum vildi hann ekkert kannast við ferðatöskurnar þrjár.

Maðurinn var handtekinn og fannst stórt sverð innanklæða á honum við öryggisleit.  Maðurinn er grunaður um hylmingu og brot á vopnalögum. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Enginn var fluttur á bráðamóttöku en einn kenndi sér eymsla í fæti og baki eftir harðan árekstur tveggja bifreiða á Suðurlandsvegi, við Heiðmerkurveg, á sjötta tímanum í gær.  Óhappið má rekja til þess að annarri bifreiðinni var ekið frá Heiðmerkurvegi inn á Suðurlandsveg í veg fyrir aðra bifreið. Báðar bifreiðar óökufærar og fjarlægðar af vettvangi af Króki. 

Síðdegis í gær voru tilkynnt eignaspjöll hjá bílaleigu í Austurbænum (hverfi 104).  Í öryggismyndavélum sést er maður og kona reyna að brjóta upp lyklabox sem er fyrir skil á bílaleigubílum. Virðist sem fólkið hafi ekki náð að komast í lyklana en það náði að skemma boxið.

Lögreglan hafði afskipti af manni sem er grunaður um þjófnað í verslun við Laugaveg í gærkvöldi. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu. Á ellefta tímanum voru síðan tilkynnt eignaspjöll í fjölbýlishúsi í Austurbænum (hverfi 105) en þar voru unnar skemmdir á útihurðum við innbrotstilraun.   

Töluvert var um að lögregla þyrfti að hafa afskipti af ökumönnum á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt vegna ýmissa brota, svo sem aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Einn sem var stöðvaður á Arnarnesvegi á 85 km hraða þar sem aka má á 60 er grunaður um neyslu áfengis en undir refsimörkum. Farþegi í bifreiðinni tók við akstrinum eftir afskipti lögreglu.

mbl.is