Óbreytt landamæraskimun áhrifaríkust

Þríeyki almannavarna á blaðamannafundi í dag.
Þríeyki almannavarna á blaðamannafundi í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur öruggast út frá sóttvarnasjónarmiðum að núverandi fyrirkomulag landamæraskimunar verði framlengt. Sex vikur eru frá því reglurnar tóku gildi en síðan þá hafa allir þeir sem koma til landsins þurft að fara í skimun á landamærum, sæta fjögurra til sex daga sóttkví og fara því næst í aðra skimun.

Núgildandi reglugerð fellur að óbreyttu úr gildi 6. október og var Þórólfur því spurður að því á blaðamannafundi almannavarna í dag hvert hann teldi að framhaldið ætti að vera.

„Varðandi landamæraaðgerðir þá skilaði ég nokkrum möguleikum fyrir ríkisstjórnina og fyrir minn ráðherra um til hvaða ráða væri hægt að grípa á landamærum og hvaða aðgerðir væru öruggastar út frá sóttvarnasjónarmiðum. Ég veit ekki til þess að það hafi neitt breyst,“ sagði Þórólfur en hann skilaði í ágúst minnisblaði til ráðherra þar sem tíundaðir voru kostir og ókostir níu ólíkra útfærslna á landamæraaðgerðum. Varð að lokum sú aðferð valin sem Þórólfur hafði sagt áhrifaríkasta út frá sóttvarnasjónarmiðum.

Þórólfur sagði á fundinum í dag að þegar tekið væri tillit til þeirra erfiðleika sem landsmenn gengju nú í gegnum innanlands þar sem tveir stofnar kórónuveirunnar gengju, auk þess að veiran væri í vexti í öðrum löndum, væri það hans mat að sú leið væri enn áhrifaríkust.

Þurfa þessi orð Þórólfs ekki að koma á óvart enda sagði hann í Kastljósi í seinasta mánuði að fyrirkomulagið á landamærunum, sem þá var nýkynnt, ætti eftir að vara í marga mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert