Sendiherrann óskar ÍAV til hamingju

Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, óskar Íslenskum aðalverktökum til hamingju með að hafa landað 5,3 milljarða króna samningi við bandaríska varnarmálaráðuneytið um endurbætur á herflugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þetta gerir sendiherrann á Twitter.

Greint var frá því í síðustu viku að Íslenskir aðalverktakar hefðu orðið hlutskarpastir í útboði sem auglýst var á síðasta ári, en verkið mun alfarið fjármagnað af bandarískum stjórnvöldum.

„Til hamingju Íslenskir aðalverktakar með að hafa hlotið samning við varnarmálaráðuneytið um að virði 38,8 milljóna dala [5,3 ma.kr.]. Vinna ykkar við að bæta herstöðina í Keflavík mun halda Íslandi öruggu og frjálsu og skapa um leið störf,“ segir sendiherrann og merkir færsluna með myllumerkjunum #StrongAllies (sterkir bandamenn) og #SharedValues (sameiginleg gildi) auk þess að merkja utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra Íslands sérstaklega.

Glöggir taka einnig eftir að þrátt fyrir að færslan sé skrifuð á ensku beygir sendiherrann nafn Íslenskra aðalverktaka í eignarfalli og veitir þar með ensku forsetningunni „to“ sömu fallstjórn og íslenskri hliðstæðu hennar, „til“.

mbl.is