Stórkostlegt að sjá þær synda í fyrsta sinn

Mjaldrarnir Litla-Grá og Litla-Hvít fengu að synda í fyrsta sinn í sjónum í Klettsvík við Vestmannaeyjar.

Sérfræðingar fylgdust gaumgæfilega með þegar mjöldrunum var sleppt lausum svo þeir gætu skoðað griðasvæði sitt og notið nýju heimkynnanna betur.

Í tilkynningu kemur fram að mjaldrarnir hafi tekið miklum framförum síðan þeir voru fluttir í Klettsvík í ágúst. Fyrsti sundsprettur þeirra er hluti af stærra verkefni sem snýst um að þeir geti smám saman aðlagast mun stærra umhverfi sínu. Verkefnið nefnist „Lítil skref“. Litla-Grá og Litla-Hvít fá af og til að synda á svæði í Klettsvík sem er 32.000 fermetrar að stærð og allt að 10 metra djúpt, eða á stærð við sautján tennisvelli. Þess á milli dvelja þær í sínu verndaða umhverfi.

Njóta þess að vera í sjónum

„Við erum í skýjunum yfir framförunum hjá Litlu-Grá og Litlu-Hvít síðan þær voru fluttar á griðasvæðið. Þær matast vel og hafa náð að aðlagast þessum aðstæðum sem eru náttúrulegri, ásamt ytri umhverfisþáttum. Við kynnum þeim smám saman flóann í litlum skrefum en að sjá þær synda saman og kafa djúpt í flóanum var stórkostlegt að sjá. Við fengum þá tilfinningu að Litla-Grá og Litla-Hvít nytu þess að vera komnar aftur í sjóinn,“ sagði Andy Bool, yfirmaður Sea Life Trust.

mbl.is