Tvöföldun smita kemur ekki á óvart

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að fjöldi greindra smita kórónuveirunnar í gær, 39 talsins, komi ekkert á óvart miðað við að fjórtán manna hópsýking varð um borð í skipinu Valdimar GK.

Smitin eru næstum tvöfalt fleiri en greindust á laugardaginn þegar þau voru tuttugu.

„Það sem er jákvætt er hversu margir eru í sóttkví. Það hefur ekki verið svona hátt hlutfall í sóttkví lengi,“ segir Víðir, en 34 voru í sóttkví við greiningu.

Færri sýni tekin 

Hann bendir á að 39 smit séu talsverður fjöldi miðað við að töluvert færri sýni eru tekin um helgar. Horfa þarf á einn til tvo virka daga í viðbót til að hægt verði að greina breytingar betur.

„Það er full ástæða til að hafa mikinn vara á sér áfram,“ segir hann og nefnir einstaklingsbundnar sóttvarnir og að fólk mæti ekki í vinnu finni það fyrir einhverjum einkennum.

Spurður hvort hugmyndir séu uppi um hertari aðgerðir til að hafa hemil á veirunni segir hann að þau mál verði ekki endurskoðuð fyrr en á miðvikudaginn.

mbl.is