Nánast óskert skólastarf frá 1. október

Börn að leik á skólalóð Vesturbæjarskóla síðastliðið vor.
Börn að leik á skólalóð Vesturbæjarskóla síðastliðið vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skólastarf er meira og minna orðið með eðlilegum hætti í grunnskólum borgarinnar, nema í þriðja bekk í Melaskóla, Vesturbæjarskóla og Grandaskóla. Þar eru um tvö hundruð börn í sóttkví og verða það út þessa viku.

Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Einnar viku sóttkví mikil breyting

Nemandi í þriðja bekk sem var smitaður fór í frístundastarf með öðrum börnum og fyrir vikið þurfti fjöldi nemenda að fara í sóttkví. Engin önnur smit hafa komið upp í skólunum, að sögn Helga.

Öll börnin í skólunum hafa fengið heimavinnuskammta til þess að lágmarka áhrifin á skólastarfið. „Það er mikil breyting, bæði fyrir nemendur og starfsmenn þegar sóttkví er stytt úr hálfum mánuði í viku. Það skiptir máli fyrir líðan allra og hinn daglega takt,“ segir Helgi og bætir við að það sé ánægjulegt að engar fréttir hafi borist um útbreiðslu veirunnar. „Þetta undirstrikar hvað sóttvarnir og smitvarnir innan stofnana skipta miklu máli og hvað almennt hefur vel tekst til um aðgerðir.“

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Helgi reiknar með því að frá fyrsta október verði skólastarfið orðið nánast óskert í öllum skólum miðað við stöðu mála núna. Áhrifin af þessari þriðju bylgju veirunnar hafi verið mikil í upphafi en núna virðast þau vera að fjara út. 

Níu nemendur smitaðir í Tjarnarskóla

Í Tjarnarskóla eru níu nemendur og fimm starfsmenn smitaðir. Nemendurnir eru í fjarnámi og hafa tveir kennarar haldið utan um það. Kennarar losna úr einangrun um næstu helgi og um miðja næstu viku ættu allir að vera lausir úr einangrun.

Uppfært kl. 8.25:

Börnin í Vesturbænum losna úr sóttkví í dag, miðvikudag, en ekki í lok vikunnar.

Níu nemendur Tjarnarskóla smituðust.
Níu nemendur Tjarnarskóla smituðust. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is