„Ansi mikill óstöðugleiki“ í Fjarðabyggð

Bæjarfulltrúi segir uppsögnina vera eina birtingarmynd þeirrar óstjórnar sem er …
Bæjarfulltrúi segir uppsögnina vera eina birtingarmynd þeirrar óstjórnar sem er við lýði í bæjarfélaginu. mbl.is

Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð, sem er í minnihluta í sveitarstjórninni, segir að reynt hafi á ýmislegt hjá sveitarstjórn Fjarðabyggðar; „ansi mikill óstöðugleiki“ einkenni stjórnarhætti bæjarfélagsins auk þess sem reksturinn sé í mikilli óstjórn.

„Fyrir mér er þetta bara einn hluti þessarar óstjórnar sem er í sveitarfélaginu. Meirihlutinn ræður bæjarstjóra til fjögurra ára og hann heldur ekki út,“ segir Ragnar. Minnihlutinn fékk engar frekari skýringar á uppsögn Karls Óttars Péturssonar, fyrrverandi bæjarstjóra sveitarfélagsins og hafði ekki aðkomu að uppsögninni.

Ragnar Sigurðsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í Fjarðabyggð.
Ragnar Sigurðsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í Fjarðabyggð. Ljósmynd/Aðsend

„Það væri gott ef menn myndu fara að snúa við rekstrinum og haga útgjöldunum eftir tekjunum. Tekjurnar hafa auðvitað dregist saman og það er ekki sökum faraldursins. Hér verður loðnubrestur og við bentum þá strax á að það þyrfti að endurskoða fjárhagsáætlunina og meirihlutinn hafnaði því,“ segir Ragnar.

Spurður hvort hann sjái ástandið batna á þessu kjörtímabili segir Ragnar:

„Útgjöldin hafa stóraukist og meirihlutinn er kominn í þá vegferð að fara að safna skuldum á nýjan leik, eftir nokkur góð ár þar sem skuldirnar voru borgaðar upp hratt og örugglega. Það blasir við hallarekstur og aukin skuldsetning,“ segir Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert