Ekkert lát á lægðunum

Það er sem sagt ekkert lát á lægðum í dag …
Það er sem sagt ekkert lát á lægðum í dag og á morgun og eins og gefur að skilja verður vindur nokkuð breytilegur. Kort/Veðurstofa Íslands

Skammt vestur af Reykjanesi er 991 mb lægð og 600 km suður af Dyrhólaey er 992 mb lægð sem kemur upp að Suðausturlandi í kvöld og svo kemur sú þriðja að Austfjörðum annað kvöld. Það er sem sagt ekkert lát á lægðum í dag og á morgun og eins og gefur að skilja verður vindur nokkuð breytilegur. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

„Fremur hæg suðlæg átt í fyrstu en norðaustan 8-13 norðvestan til og 10-18 m/s þar síðdegis. Rigning eða skúrir og talsverð rigning suðaustanlands síðdegis og sums staðar slydda norðvestan til en úrkomulítið á Norðausturlandi. Suðaustan 10-18 m/s á austanverðu landinu seint í kvöld og á morgun með rigningu en dregur úr vindi vestan til, vestan 5-10 og dálitlar skúrir á þeim slóðum á morgun. Hiti víða 2 til 8 stig,“ segir enn fremur í hugleiðingum veðurfræðings nú í morgunsárið.

Veðurspáin næstu daga

Austlæg eða breytileg átt 5-13 m/s en 10-18 síðdegis norðvestan til og einnig austan til í kvöld. Rigning með köflum en sums staðar slydda norðvestanlands og úrkomulítið á Norðausturlandi. Talsverð rigning um suðaustanvert landið síðdegis. Hiti 2 til 10 stig að deginum, hlýjast austanlands.

Vestlæg átt 3-10 á morgun, en suðaustan 13-18 á annesjum norðaustanlands fram eftir degi. Rigning um austanvert landið, en skýjað með köflum og úrkomulítið annars staðar. Hiti 2 til 8 stig, en frystir víða annað kvöld.

Á miðvikudag:
Vestlæg átt 3-10, en suðaustan 13-18 á annesjum norðaustanlands fram eftir degi. Rigning um austanvert landið en skýjað með köflum og úrkomulítið annars staðar. Hiti 3 til 8 stig en frystir víða um kvöldið.

Á fimmtudag:
Suðlæg eða breytileg átt, 5-10 m/s. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt en rigning af og til um landið norðaustanvert. Hiti 2 til 7 stig að deginum.

Á föstudag:
Suðlæg átt 5-10 m/s og bjart með köflum en austlægari og dálítil rigning austan til um kvöldið. Hiti 2 til 8 stig.

Á laugardag:
Austlæg átt og rigning með köflum norðan og austan til, annars þurrt. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag og mánudag:
Norðlæg eða breytileg átt og rigning af og til en úrkomulítið suðvestanlands.

mbl.is