„Fegin að samningar standi“

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Drífa Snædal, forseti ASÍ, er að vonum ánægð með ákvörðun framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins um að lífskjarasamningurinn gildi áfram.

„Ég er fegin að samningar standi. Mér fannst þetta eina niðurstaðan sem hægt var að komast að,“ segir Drífa.

„Við öxluðum ábyrgðina á því að láta samninga standa og buðum frið á vinnumarkaði. SA þurfti greinilega að fara krókaleið til að komast að sömu niðurstöðu,“ segir hún og á þar við atkvæðagreiðsluna um uppsögn samningsins sem síðan var hætt við. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Drífa Snædal, forseti …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Drífa Snædal, forseti ASÍ, á samsettri mynd. Ljósmynd/Samsett

Skapað mikinn óróleika

Spurð hvort hótun SA um að segja upp lífskjarasamningnum gefi fordæmi fyrir því að ASÍ hóti uppsögnum síðar meir ef þeim finnst forsendur samninga vera brostnar segir Drífa að þetta hafi verið „ótrúleg vegferð hjá SA að fara í“.

„Það að hafa farið í þessa vegferð hefur skapað mikinn óróleika,“ bætir hún við og á við „upphlaupin“ í kringum lífskjarasamninginn. „Það sem skiptir máli er að vera með fyrirsjáanleika og festu og ábyrgð. Þetta fór í aðra átt og það var ekki gott.“

mbl.is