Sóttkvíarbrot í skoðun hjá lögreglu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Tilkynnt var til lögreglu um brot á sóttkví í Kópavogi í gær en tveir erlendir verkamenn sem eiga að vera í sóttkví til 11. október voru sagðir hafa verið á ferðinni meðal fólks. Málið er í skoðun hjá lögreglu að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ofurölvi maður var handtekinn í Austurbænum (hverfi 104) síðdegis í gær. Maðurinn var til ama við sparkvöll þar sem börn og unglingar voru að leik. Maðurinn gat ekki framvísað skilríkjum né gefið upp kennitölu og er hann vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan handtók mann sem hafði brotið rúður í Austurbænum (hverfi 108) í gærkvöldi. Hann var í mjög annarlegu ástandi og með skurð á hendi sem blæddi úr. Hann var færður á bráðamóttöku Landspítalans þar sem saumuð voru nokkur spor í hendi hans. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan för ökumanns í Austurbænum (hverfi 105) sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður var einnig stöðvaður undir áhrifum fíkniefna í hverfi 108 í nótt og ölvaður ökumaður í gærkvöldi í miðborginni.

Um miðnætti var síðan ökumaður stöðvaður á Reykjanesbraut sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna auk þess sem hann er sviptur ökuréttindum. Um svipað leyti var ökumaður stöðvaður í Árbænum sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Á áttunda tímanum í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af manni vegna búðarhnupls í verslun úti á Granda. 

mbl.is