Starfsmaður Hagkaups með Covid-19

mbl.is/Kristinn Magnússon
Starfsmaður Hagkaups í Spönginni greindist með Covid-19-smit í gær, mánudag. Til að gæta fyllstu varúðar voru allir starfsmenn verslunarinnar sem voru í samskiptum við umræddan starfsmann sendir í sóttkví. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagkaupum til viðskiptavina á samfélagsmiðlum.
„Var það gert í góðu samráði við rakningarteymi almannavarna og gengið lengra en almennar sóttvarnareglur segja til um. Athygli er vakin á því að umræddur starfsmaður var ekki í nánu samneyti við viðskiptavini verslunarinnar.
Verslunin var sótthreinsuð hátt og lágt í nótt og opnuð á ný í morgun. Starfsfólk úr öðrum verslunum okkar mun því standa vaktina og verður starfsemin því að mestu óbreytt næstu daga. Við munum því taka vel á móti ykkur í Spönginni.
Við viljum þakka rakningarteyminu fyrir gott samstarf og snör viðbrögð og sömuleiðis okkar frábæra starfsfólki fyrir sýndan skilning,“ segir í tilkynningunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert