181 misst vinnuna í 6 hópuppsögnum

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls hafa verið tilkynntar sex hópuppsagnir til Vinnumálastofnunar undanfarna daga. 181 hefur misst vinnuna í þessum hópuppsögnum. Af þeim eru 155 starfandi hjá ferðaþjónustufyrirtækjum og síðan var 26 starfsmönnum byggingarfyrirtækis sagt upp störfum í gær.

Að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, mælist atvinnuleysi 8,6% í september og um 1% er í minnkaðri vinnu. Þannig að atvinnuleysið nálgast 10% sem er mikið segir Unnur. Sá fyrirvari er á þessum tölum að um bráðabirgðatölur er að ræða og liggur ekki fyrir fyrr en eftir viku til tíu daga endanlegur fjöldi fólks á atvinnuleysisskrá á Íslandi. 

Fjöldi atvinnulausra er svipaður þeim og spár Vinnumálastofnunar höfðu gert ráð fyrir segir Unnur í samtali við blaðamann mbl.is.

Almennt atvinnuleysi var 8,5% í ágúst sem er nokkur aukning frá fyrri mánuðum. Atvinnuleysið var 7,9% í júlí, 7,5% í júní og 7,4% í maí. Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli var óbreytt í ágúst frá júlí eða 0,9%.

Alls bárust 4 tilkynningar um hópuppsagnir í ágúst, þar sem 284 starfsmönnum var sagt upp störfum. Flestum var sagt upp í tveimur fyrirtækjum tengdum ferðaþjónustu á Suðurnesjum eða 195, 68 í flutningastarfsemi á Suðurlandi og eitt í gistiþjónustu á Vesturlandi eða 21.Uppsagnarfrestur þeirra sem sagt var upp í hópuppsögnum ágústmánaðar er í flestum tilvikum á bilinu 1 til 3 mánuðir og koma því til framkvæmda á tímabilinu október til desember.

Fyrstu 8 mánuði ársins hefur 8.218 starfsmönnum verið sagt upp störfum í 125 tilkynningum um hópuppsagnir, þar af langflestum í ferðatengdri starfsemi eða u.þ.b. 7.000. Við það bætast þeir 181 starfsmenn sem hefur verið sagt upp í sex hópuppsögnum í september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert