„Óttinn er minni en í fyrri bylgjunni“

„Við tökum einn dag í einu fram á næsta mánudag þegar liðnir verða sjö dagar frá síðustu útsetningu og við skimum alla aftur í svokallaðri sjöunda dags skimun. Þá kemur betur í ljós hvernig okkur hefur reitt af,“ segir Þórdís Hulda Tómasdóttir, verkefnisstjóri hjúkrunar á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi.

Tveir starfsmenn og fjórir íbúar á Eir hafa greinst með kórónuveiruna. Yfir tuttugu manns eru í sóttkví; allir íbúar á deildinni, sem er á annarri hæð í A-húsi Eirar, ásamt fimm starfsmönnum. 

Þórdís Hulda segir í samtali við mbl.is að hljóðið í fólki á Eir sé eftir atvikum ágætt. Starfsmennirnir fengu væg einkenni og greindust við sýnatöku. Allir íbúarnir fjórir greindust hins vegar einkennalausir við skimun.

„Þegar sá fyrsti greindist þá einangruðum við hann á deildinni og vonuðumst þá til að það væru nægar aðgerðir. Síðan héldum við áfram að stækka hringinn og skima og þá fundum við tvo einkennalausa. Þá áttuðum við okkur á því að við þyrftum að grípa til enn harðari aðgerða,“ segir Þórdís.

Það reyndist ekki auðvelt því húsakostur er þröngur á Eir að sögn Þórdísar. Íbúar búa í tvíbýli og deila salerni. Brugðið var á það ráð að dagdeild Eirar færði starfsemi sína út í bæ. „Þá gátum við sett upp sérhæfða Covid-deild, alveg lokaða. Þar getum við passað upp á að engin blöndun sé meðal sýktra og ósýktra. Þar er aðeins sérhæft starfsfólk sem sinnir eingöngu Covid-sjúklingum.“

Þórdís hrósar viðbrögðum starfsfólks Eirar á þessum erfiðu tímum. „Starfsfólkið hefur verið ótrúlega duglegt. Hér erum við með tvær deildir og allir í fullum hlífðarbúnaði. Það er rosalega erfitt en fólk hefur verið sveigjanlegt og hefur staðið sig afar vel.“

Íbúar hafa tekið þessu ástandi með jafnaðargeði að sögn Þórdísar. „Ég upplifi ekki að fólk hafi verið hissa. Það hefur sennilega verið búið að undirbúa sig andlega þó það hafi ekki orð á því. Auðvitað finnur maður fyrir hræðslu en viðbrögð fólks hafa samt verið róleg og yfirveguð,“ segir hún og bendir á að það hjálpi eflaust mikið að enn sem komið er sé fólk einkennalaust. Eins sé jákvætt að það hafi verið að berast fréttir af eldra fólki sem komist hefur klakklaust í gegnum kórónuveirusmit. 

„Óttinn er minni en í fyrri bylgjunni. Fólk er betur upplýst nú og það eru til fleiri meðferðir. Fyrir vikið virðist fólk ekki vera eins hrætt.“

mbl.is