Sex bílar í hálkuvörnum í morgun

Hálka var á götum höfuðborgarsvæðisins í morgun og lentu margir …
Hálka var á götum höfuðborgarsvæðisins í morgun og lentu margir í vandræðum við að komast leiðar sinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Vetur konungur minnti á sig á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Hálka var víða á götum og urðu tafir vegna umferðaróhappa af þeim sökum. 

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var brugðist við hálkunni þegar ljóst var í hvað stefnd. „Þó vetrarþjónustan sé ekki hafin formlega hjá okkur og engar vaktir skipulagðar hafði starfsmaður varann á og ræsti út 6 bíla til hálkuvarna á götum í nótt kl. 4.30,“ segir í svari borgarinnar við fyrirspurn mbl.is.

Að því er fram kemur á vef borgarinnar er notast við saltpækil við hálkueyðingar. „Á umferðargöturnar fara stórvirk snjóruðningstæki sem komast hratt yfir og þau nota salt til hálkueyðingar. Hér hefur í auknum mæli verið notast við saltpækil sem gagnast vel á ísingu. Markmiðið er að tryggja öryggi með eins litlu saltmagni og mögulegt er.

Á stíga og gangstéttar fara sérútbúnar dráttarvélar og til hálkueyðingar er notaður þveginn sandur (0 - 8 mm) og í sumum tilvikum saltpækill,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert