Slapp naumlega við sóttkví

Davíð Laufdal líkar vel að búa í London. Hann þarf …
Davíð Laufdal líkar vel að búa í London. Hann þarf að bera grímu í almenningssamgöngum og sumum verslunum. Ljósmynd/Aðsend

Ferðatakmarkanir og kröfur yfirvalda um sóttvarnir hafa sett mark sitt á áform margra Íslendinga nú í haust. Ferðalögum hefur verið frestað og breyta hefur þurft ráðahag um búferlaflutninga, nám og fleira. 

Einn þeirra sem þurfti að bregðast fljótt og örugglega við breytingum af völdum kórónuveirunnar er Davíð Laufdal Arnarsson. Hann stundar nám í almannatengslum í tískugeiranum við London College of Fashion. Davíð átti pantað flug með Icelandair út á föstudaginn næsta, 3. október. Þegar í ljós kom í síðustu viku að Bretland hafði sett Ísland á rauða listann hafði hann hraðar hendur við að koma sér út til að sleppa við tveggja vikna sóttkví.

„Ég kom heim um fimmleytið á fimmtudeginum og sá þetta. Þá bókaði ég strax flug ogf fór út morguninn eftir,“ segir Davíð sem flaug út með Easyjet daginn áður en ferðatakmarkanirnar tóku gildi. „Þetta var smá maus en blessunarlega endaði þetta ágætlega,“ segir Davíð. Síðar kom í ljós að Icelandair aflýsti fluginu hans til London svo þessi ráðahagur kom sér á endanum ágætlega.

Davíð er á öðru ári í námi sínu sem hann segir að sé fjölbreytt og snúist meðal annars um það „hvernig þú tengir við kúnnann á mismunandi hátt“. Hann býður enn eftir að fá íbúð sína afhenta fyrir veturinn en kveðst hafa fengið inni hjá vinkonu sinni fram að því. „Það hefði eflaust verið frekar stressandi ef ég hefði verið að koma hingað í fyrsta skipti við þessar aðstæður. Sem betur fer er ég orðinn smá sjóaður í London,“ segir hann.

Sóttvarnaraðgerðir hafa verið hertar í Bretlandi að undanförnu. Ekki mega fleiri en sex koma saman og opnunartími á börum hefur verið styttur til klukkan 22, svo dæmi séu tekin. Davíð segir að við fyrstu sýn sé stemningin þó svipuð og á Íslandi. „Maður þarf að vera með grímu í almenningssamgöngum og í sumum búðum. Ég myndi segja að það væri svona 50/50 hvort fólk er með grímur. Barir og veitingastaðir eru opnir og ástandið er ekkert svo slæmt.“

Skólinn byrjar ekki fyrr en 19. október svo Davíð gefst ágætur tími til að koma sér fyrir. Þegar er þó ljóst að námið mun taka mið af hertum sóttvarnaraðgerðum í Bretlandi. „Ég fer í einn tíma á viku í skólanum en síðan er þetta bara á netinu. Það er smá pirrandi. Ég hef heyrt frá fólki sem er í skólum hérna úti að það eru allskonar ráðstafanir, margir byrjuðu kannski á að mæta en svo fór þetta allt á netið. Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta verður.“

Aðalbækistöðvar skólans eru við Oxford Circus en Davíð býr í Earls Court. Hann segir að það taki um 50 mínútur að ganga þar á milli en hann notist mikið við almenningssamgöngur. Það þarf því að huga að góðri grímu fyrir veturinn, jafnvel grímu sem hæfir manni í tískunámi? „Já, ég á eftir að finna einhverja flotta grímu. Ég er bara með einhverja ljóta, bláa,“ segir Davíð í léttum tón.

mbl.is

Bloggað um fréttina