Tæpir 60 mm í Neskaupstað í nótt

Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í gildi á Austfjörðum vegna mikillar úrkomu og gildir hún fram á kvöld. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón, segir í viðvörun Veðurstofu Íslands.

„Í gær var dálítil væta á höfuðborgarsvæðinu og svo stytti upp og létti heldur til í gærkvöldi. Frost fór niður í tæp þrjú stig í Víðidal í nótt en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu var hitinn frá frostmarki upp í þrjú stig, en það vill svo til að mælt er í tveggja metra hæð sem er ekki endilega lýsandi fyrir hita við yfirborð en þar frysti líklega víða. Þar sem yfirborðið var blautt fyrir má því víða finna hálku á höfuðborgarsvæðinu nú í bítið og raunar víðar á vesturhelmingi landsins en hálkan bráðnar með morgninum er sól fer hækkandi.

Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt í dag, skýjað með köflum og stöku skúrir en strekkings eða allhvöss austlæg átt austan til á landinu og rigning. Töluvert hefur rignt í nótt á þeim slóðum, tæpir 60 mm hafa mælst í Neskaupstað frá miðnætti, en það styttir upp á Austfjörðum í kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðlæg átt, víða 5-10 m/s en suðaustan 10-18 m/s norðaustanlands. Rigning austan til, talsverð eða mikil úrkoma á Austfjörðum. Stöku skúrir um vestanvert landið í dag, og fer að rigna á Norðvesturlandi í kvöld. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast austan til.
Suðlæg átt 3-8 m/s og bjart með köflum á morgun en suðaustan 8-13 m/s suðvestanlands og stöku skúrir. Hiti 3 til 8 stig að deginum.

Á fimmtudag:
Suðlæg eða breytileg átt, víða 3-8 m/s. Bjart með köflum, en dálitlar skúrir suðvestan til og líkur á rigningu við norðausturströndina um kvöldið. Hiti 3 til 8 stig að deginum.

Á föstudag:
Austlæg átt 3-8 m/s, skýjað og úrkomulítið en norðaustan 5-13 og víða rigning um austanvert landið. Hiti 1 til 8 stig.

Á laugardag:
Suðlæg átt 3-8 og dálitlar skúrir, en léttir víða til norðanlands. Hiti 3 til 10 stig yfir daginn, hlýjast á Norðausturlandi.

Á sunnudag og mánudag:
Norðlæg átt og rigning af og til, en úrkomulítið suðvestanlands. Hiti 3 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Fremur hæg breytileg átt, að mestu skýjað og úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert