Þrír á gjörgæslu, þar af tveir í öndunarvél

Glímt við kórónuveirufaraldur á Landspítala.
Glímt við kórónuveirufaraldur á Landspítala.

Tíu manns liggja nú inni á Landspítala vegna kórónuveirusmits, að því er fram kemur í tilkynningu á vef spítalans. Þrír þeirra eru á gjörgæslu en í tilkynningu spítalans kemur fram að tveir þeirra sem á gjörgæslu eru séu í öndunarvél.

Þegar tölur vegna COVID-19 voru kynntar í morgun var tilkynnt um átta á spítala og tvo á gjörgæslu. Því hefur bæst í þann hóp á síðastliðnum sólarhring.

Vegna vaxandi þunga faraldursins og að enn eigi innlagnaþungi sjúklinga með Covid-19 eftir að aukast, hefur Landspítali eflt viðbragð sitt i samræmi við viðbragðsáætlun. Svefndeild verður lokað frá og með morgundeginum, 1. október.

Ljóst er að vegna aðstæðna má búast við breyttri starfsemi á nokkrum deildum spítalans og að starfsfólk verði tímabundið beðið að færa sig til í starfi, eftir því sem nauðsyn krefur.

550 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, 115 starfsmenn eru í sóttkví og 37 starfsmenn í einangrun.

mbl.is

Bloggað um fréttina