Umferðartafir og árekstrar

Hálka var á götum höfuðborgarsvæðisins í morgun og lentu margir …
Hálka var á götum höfuðborgarsvæðisins í morgun og lentu margir í vandræðum við að komast leiðar sinnar, m.a. hér á Suðurlandsvegi á áttunda tímanum. mbl.is/Árni Sæberg

Miklar tafir hafa verið á umferð víða á höfuðborgarsvæðinu vegna hálku en engin alvarleg slys hafa orðið í umferðinni að sögn varðstjóra í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þannig mynduðust bílaraðir á Suðurlandsvegi við Árbæinn í morgun vegna áreksturs.

Eitthvað hefur verið um minni háttar árekstra og nauðsynlegt að fara varlega. Byrjað var að salta götur og stíga á sjötta tímanum í morgun sem er heldur seinna en venjulega þar sem vetrarþjónustan hefst ekki fyrr en á morgun, 1. október. Hlýnað hefur í veðri og því nánast öll hálka horfin af götum. 

Í gær var dálítil væta á höfuðborgarsvæðinu og svo stytti upp og létti heldur til í gærkvöldi. Frost fór niður í tæp þrjú stig í Víðidal í nótt en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu var hitinn frá frostmarki upp í þrjú stig, en það vill svo til að mælt er í tveggja metra hæð sem er ekki endilega lýsandi fyrir hita við yfirborð en þar frysti líklega víða. Þar sem yfirborið var blautt fyrir má því víða finna hálku á höfuðborgarsvæðinu nú í bítið, og raunar víðar á vesturhelmingi landsins, en hálkan bráðnar með morgninum er sól fer hækkandi. 

Eitthvað hefur verið um að reiðhjólafólk hafi flogið á hausinn á stígum á höfuðborgarsvæðinu enda víða hálka snemma í morgun. Ekki er vitað um slys á fólki vegna þessa. 

mbl.is