Veiran dreifðari en í vetur

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn eru dæmi um að fólk sem greinist síðar smitað af kórónuveirunni fari til vinnu, á íþróttaæfingar og fleiri staði með einkenni COVID-19, að sögn sóttvarnalæknis sem hvetur fólk til að halda sig heima sé það með einkenni. Veiran er dreifðari en hún var í vetur en sóttvarnalæknir segir ánægjulegt að hlutfallslega séu fleiri í sóttkví við greiningu en áður var í þriðju bylgju. Hann býst við því að daglegur smitfjöldi fari hægt niður á við. 

Átta liggja nú á sjúkrahúsi vegna veirunnar og er ekki eingöngu um eldra fólk að ræða þar sem sá yngsti er á þrítugsaldri og sá elsti á sjötugsaldri. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að spítalainnlagnir nú séu ákveðið áhyggjuefni en telur ekki þörf á að herða aðgerðir í samfélaginu enn sem komið er. 

„Við erum hlutfallslega ekki komin upp í það sem við sáum núna fyrr í vetur en við vonumst til þess að það fari ekki að aukast,“ segir Þórólfur um innlagnirnar. 

„Það virðist ekki vera að veiran sé eitthvað vægari núna en hún var. Það á eftir að koma betur í ljós þegar fram líða stundir.“

Sæjum ekki sama árangur af hörðum aðgerðum og í vetur

Í byrjun þriðju bylgju smitaðist aðallega ungt fólk. Spurður hvort spítalainnlagnirnar bendi til þess að smitin hafi verið að berast frá yngra fólki til eldra fólks segir Þórólfur:

„Það er mjög líklegt og í viðkvæmari hópa líka. Svo vitum við það að veiran getur farið illa í tiltölulega ungt fólk þannig að þetta er ekki bara gamalt fólk sem er að leggjast inn. Eftir því sem við fáum fleiri smit förum við að fá þessar alvarlegu afleiðingar bæði í viðkvæmum hópum og jafnvel á meðal þeirra sem við teljum ekki vera viðkvæma hópa eins og við sáum í vetur.“

Spurður hvort viðkvæmir hópar hafi verið verndaðir nægilega vel segir Þórólfur að mikilli vinnu hafi verið varið í að vernda þá, sérstaklega hvað hjúkrunarheimili og félagsþjónustu varðar. Ef grípa ætti til harðari aðgerða í samfélaginu komi helst almennar aðgerðir í samfélaginu til greina. 

„Í vetur skilaði það árangri en það tók 1-2 vikur að sjá þann árangur. Mín tilfinning er sú að við náum þessum tilfellum niður, það gerist hægt, og sama segir spálíkan Háskóla Íslands. Ég held að jafnvel þó við myndum grípa til harðari aðgerða þá er ekki víst að við myndum sjá sama árangur og við sáum í vetur vegna þess að aðstæðurnar eru bara allt aðrar. Það er meiri dreifing á veirunni í samfélaginu heldur en þá var. Þá fengum við þessa hröðu fjölgun með flugvélunum sem komu hérna inn á nokkurn veginn sama tíma þannig að við erum að sjá allt aðrar aðstæður,“ segir Þórólfur. 

Það þarf ekki mikið út af að bregða

Hann jánkar því að líklega verði daglegur smitfjöldi svipaður og hefur verið undanfarna daga en búast má við því að tölurnar fari hægt niður. 

„Mér finnst ekkert annað vera í spilunum en þetta veltur allt á því að fólk standi sig í þessum sýkingavörnum sem við höfum verið að gefa leiðbeiningar um. Það þarf ekki mikið út af að bregða. Það þarf ekki nema að það komi upp ein hópsýking í einhverju partýi eða þar sem fólk safnast saman til þess að kúrvan fari upp aftur. Það getur gerst jafnvel þó við séum með harðar takmarkanir. Þetta fer allt eftir því hvernig fólk fer eftir leiðbeiningum, það er aðalatriðið,“ segir Þórólfur. 

Spurður um dreifingu smita segir Þórólfur: „Þetta er mjög dreift. Það sem við erum aðallega að fylgjast með eru smit utan sóttkvíar, það er mælikvarði á samfélagssmitið. Kúrvan þar er niður á við. Við erum sem betur fer að fá fleiri hlutfallslega sem eru í sóttkví þannig að við getum búist við að sjá fleiri tilfelli bara út frá þessum fjölda sem er í sóttkví og hefur verið útsettur.“

mbl.is