600 milljarða halli út árið 2021

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir að 264 milljarða króna halli verði á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir í dag. Samanlagður halli áranna 2020 og 2021 gæti orðið um 600 milljarðar króna.

Áætlað er að tekjur ríkisins verði 772 milljarðar króna en útgjöld 1.036 milljarðar. Til samanburðar var í fjárlagafrumvarpi þessa árs, þegar kórónuveiran var víðsfjarri, gert ráð fyrir tekjum upp á 919,5 milljarða króna. Verða skatttekjur um 52 milljörðum króna lægri en þær hefðu verið ef ekki hefði komið til sérstakra aðgerða ríkisstjórnarinnar.

„Það hefur orðið algjört hrun í tekjum ríkissjóðs á skömmum tíma,“ sagði Bjarni. Sagði hann ríkissjóð búa að því að tekist hefði á undanförnum árum að draga úr skuldum ríkissjóðs sem stæði fyrir vikið sterkur að vígi. 

Bjarni sagði að í stað þess að skorið yrði niður í útgjaldakerfum ríkisins og skattar hækkaðir yrði ríkissjóður rekinn með hallareksti, fjármögnuðum með lántökum. „Það mun til lengri tíma skila okkur á betri stað hvað varðar atvinnustig og velferð í landinu,“ sagði hann.

Gert er ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu verði 48% við árslok 2021, en hlutfallið var 20% í árslok 2019. Samhliða fjárlagafrumvarpinu var kynnt uppfærð fjármálastefna áranna 2021-2025, en þar er meðal annars stefnt að því að skuldasöfnun ríkissjóðs nái hámarki árið 2025 og verði skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu þá 59%.

mbl.is