„Bráðavandi heimila og lítilla fyrirtækja er núna“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í ræðu sinni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld að kjósendur gætu í næstu kosningum valið um „fortíðarflokka“ eða flokka sem þora að tala um umbætur á íslensku þjóðfélagi.

Þorgerður sagði einnig að í stefnuræðu forsætisráðherra hefði ekkert komið fram um hvernig á að gæta þess að almenningur verði þáttakendur í viðreisn efnahagslífsins.

„Hér áttum við að heyra stefnuræðu forsætisráðherra. En í staðinn fengum við varnarræðu ríkisstjórnarinnar. Uppfulla af réttlætingu yfir því að ráðherrarnir fóru þvert gegn eigin yfirlýsingum í upphafi faraldursins - um að gera meira en minna. Réttlæting á því að þau tóku lítil skref - í stað stórra skrefa. Strax.

Ríkisstjórn kyrrstöðunnar

Þorgerður sagði að bráðavandi heimilanna væri augljós og jafnframt að ríkisstjórnin þyrði ekki að taka skref til þess mæta þessari áskorun. 

„Bráðavandi heimila og lítilla fyrirtækja er núna. Á þessari stundu. Á fyrsta degi eftir mánaðarmót. Það vantar allt samræmi á milli sóttvarnaráðstafana og efnahagsákvarðana. Ef stóru skrefin verða ekki tekin strax þá er ríkisstjórnin að bjóða þjóðinni upp á langvarandi kreppu. Það er óboðleg forgangsröðun.

Þótt ríkisstjórnin telji það lögmál að vera alltaf einu skrefi á eftir veirunni þá þarf það ekki að vera svo. Í þessar, nú þriðju bylgju er enn skortur á plani og samtali, skýrri sýn - sem þjóðin öll skilur.“

Tillaga um auðlindaákvæði merkingarlaus

Þorgerður sagði að Viðreisn muni standa vaktina og tryggja að verðmæti auðlinda í þjóðareign safnist ekki sífellt á hendur færra fólks. 

„Við blasir úrslitabarátta í einu stærsta deilumáli stjórnmálanna. Hvernig á auðlindaákvæði í stjórnarskrá að líta út? Stjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn, hafa lofað útgerðinni að koma ákvæði án tímabindingar veiðiréttar í gegn. Tillagan sem nú liggur fyrir er merkingarlaus. Breytir engu. Ef eitthvað er eykur hún líkur á að sameign þjóðar verði séreign fárra. Við því verður að spyrna. Þar munum við í Viðreisn standa vaktina.“

Valið hjá þjóðinni

Þorgerður sagði að þjóðin hefði val í næstu þingkosningum að ári. Val milli „fortíðarflokka“ og þeirra sem þora að tala umbætur á íslensku þjóðfélagi.

„Skilin eru skörp á milli fortíðarflokkanna sem engu vilja breyta og þeirra flokka sem þora að tala um umbætur á íslensku stjórnkerfi, íslensku samfélag - flokka sem eru engum háðir. Eru frjálsir. Þetta frelsi mun Viðreisn nýta. Fyrir minni fortíð, meiri mennsku og frjálsari framtíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert