Dýpsta kreppan í áraraðir

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum ekki til lengri tíma efni á því að halda úti þeirri opinberu þjónustu sem við höldum úti í dag,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi vegna fjárlagafrumvarps ársins 2021 og fjármálaáætlunar fyrir árin 2021-2025 sem stendur yfir nú. 

Bjarni sagði að ríkisstjórnin ætli samt sem áður að halda opinberu þjónustunni úti því ríkisstjórnin trúi því að um tímabundið ástand sé að ræða. 

Bjarni sagði að nú væru Íslendingar í dýpstu kreppu sem þeir hefðu séð í áraraðir og mesta samdrætti í 100 ár. „Það hefur orðið algjört hrun í afkomu ríkissjóðs,“ sagði Bjarni sem spáði því að á næsta ári verði halli ríkissjóðs 264 milljónir króna. 

Ekki valkostur að fara í harkalegan niðurskurð

Bjarni sagði að stjórnvöld hefðu nýtt „góðu árin“ vel. Þá hefðu skuldir ríkisins lækkað verulega svo ríkissjóður hafi verið í sterkri stöðu til að takast á við kreppuna. Hallinn í ár er orðinn 10% af landsframleiðslu. 

Bjarni sagðist trúa því að besta leiðin til að koma Íslendingum út úr kreppunni væri að ríkið færi ekki í niðurskurð heldur reyndi sitt besta til að verja störf og halda úti þjónustu. Hann sagði ekki valkost að „fara í harkalegan niðurskurð og tekjuöflun þegar það er ekki neinu að skipta með ríkinu hjá fyrirtækjunum í landinu.“

Um er að ræða síðasta fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar á þessu kjör­tíma­bili. Því verður út­býtt á Alþingi á fyrsta fundi nýs þings, sem sett verður í dag. Einnig er þetta fyrsta fjárlagafrumvarpið sem kynnt er eftir að kórónuveiran fór að breiðast út hér á landi. Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á efnahagslífið hérlendis sem og erlendis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert