Helgi Hrafn þingflokksformaður á lokavetri sínum

Helgi Hrafn Gunnarsson verður þingflokksformaður Pírata á komandi þingi.
Helgi Hrafn Gunnarsson verður þingflokksformaður Pírata á komandi þingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Hrafn Gunnarsson verður þingflokksformaður Pírata á komandi þingvetri, en hann var kjörinn á þingflokksfundi Pírata á dögunum og tekur við embættinu af Halldóru Mogensen. Á sama fundi var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kjörin varaþingflokksformaður og Smári McCarthy verður næsti ritari þingflokksins.

Við upphaf hvers löggjafarþings hefur þingflokkur Pírata jafnframt valið nýjan formann Pírata með hlutkesti. Það var framkvæmt á fyrrnefndum þingflokksfundi og varð Jón Þór Ólafsson fyrir valinu. 

Í tilkynningu frá Pírötum kemur fram að formannsembættinu fylgi engar formlegar skyldur eða valdheimildir. Jón Þór mun því, líkt og fyrri formenn Pírata, hafna 50% formannsálagi á þingfararkaup. Er formaður valinn til að uppfylla formkröfur Alþingis og þannig tryggja aðgang að sömu aðstoð og aðrir þingflokkar njóta.

Helgi Hrafn upplýsti í síðustu viku að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi í næstu Alþingiskosningum sem fara fram næsta haust. Þetta verður því hans síðasti þingvetur, allavega að sinni. Smári upplýsti við sama tækifæri að hann myndi ekki gefa kost á sér í næstu kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert