Lenging fæðingarorlofs kostar 1,8 milljarða

Fæðingarorlof verður lengt í 12 mánuði á næsta ári, samkvæmt …
Fæðingarorlof verður lengt í 12 mánuði á næsta ári, samkvæmt drögum að stjórnarfrumvarpi. mbl.is/Hari

Útgjöld ríkisins vegna fæðingarorlofs munu nema 19,1 milljarði króna á næsta ári og aukast um  2,2 milljarða króna frá fjárlögum ársins í ár. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun.

Sé útgjaldaaukningin sundurliðuð sést að gert er ráð fyrir að lenging fæðingarorlofs úr tíu í tólf mánuði, sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála, muni auka útgjöldin um 1,8 milljarða. Útfærsla lengingarinnar var kynnt á dögunum.

Þá kemur 434 milljóna króna aukning til vegna hækkunar á hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi, en hún er nú 600.000 krónur á mánuði. Fjárheimildin lækkar hins vegar um 51,9 milljónir króna vegna lækkandi útgjalda Fæðingarorlofssjóðs vegna fæðingarstyrks.

Fram kemur í frumvarpinu að útgjöld til fæðingarorlofs muni þar með hafa aukist um 70% að raunvirði frá árinu 2017, en þar munar mestu um lengingu fæðingarorlofs og hækkun hámarksgreiðslna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert