Ný innlögn á 12 klukkustunda fresti

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í dag, sem fór fram …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í dag, sem fór fram á óvenjulegum tíma eða klukkan 15 vegna setningar Alþingis. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis, að þriðja bylgja kórónuveirunnar muni vera lengur í samfélaginu en fyrsta bylgjan í vetur. Hann segir jafnframt að búast megi við að sóttvarnatakmarkanir muni vera í gildi næstu mánuði. Sóttvarnatakmarkanir snúist um meira en bara að ráða niðurlögum veirunnar. Takmarkanir hafi gríðarleg samfélagsleg áhrif sem taka þurfi tillit til.

Þórólfur sagðist jafnframt að lítið þurfi til að takmarkanir verði hertar en í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafi vegna þeirra fjölda smita sem greinst hefur undanfarið sé ekki tilefni til þess. Veiran er ekki í veldisvexti að hans sögn og því ástæðulaust að herða aðgerðir.

Einnig verði gripið til hertari aðgerða ef í ljós kemur að Landspítalinn geti ekki annað eftirspurn. Staðan á Landspítalanum sé hins vegar ekki svo slæm að ekki sé hægt að anna eftirspurn. Þórólfur segist hafa sent spítalanum fyrirspurn um hvernig staðan væri á spítalanum og hvernig næðist að anna eftirspurn sjúklinga ef svartsýnustu spár spálíkans Háskóla Íslands gengju eftir.

Segir spítalann anna eftirspurn

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði að róðurinn væri farinn að þyngjast á spítalanum, en að svör spítalans við fyrirspurn sóttvarnalæknis hafi verið á þá leið að spítalinn næði að anna eftirspurn, jafnvel þótt svartsýnustu spár gengju eftir.

 

Það sé þó að því gefnu að ennþá nái að manna spítalann og að því gefnu að flæði spítalans batni. Unnið sé að því að bæta flæði spítalans svo að þeir sem lokið hafi meðferð þar, á öllum deildum, geti útskrifast af spítalanum. Þannig skapist meira ráðrými til þess að takast á við „holskeflu“ innlagna sem útlit er fyrir.

Páll sagði að undanfarna daga hefði að meðaltali einn sjúklingur lagst inn á spítalann á 12 klukkustunda fresti. Eftir gærdaginn voru 11 kórónuveirusmitaðir á spítalanum og þar af tveir í öndunarvél. Páll sagði að tveir til viðbótar hefðu lagst inn á Landspítalann það sem af er degi.

 „Allar hendur á dekk“

Páll sagði jafnframt að hann bæði allt heilbrigðisstarfsfólk að skrá sig í bakvarðasveit spítalans. Allar hendur þyrfti á dekk. Sérhæfa einstaklinga þyrfti á gjörgæslu sérstaklega til þess að létta róðurinn. Tæplega 100 starfsmenn Landspítalans eru nú í sóttkví og til viðbótar eru um 30 í einangrun.

Skiljanlegt að fólk sé hundleitt

Víðir Reynisson, yfirlögreluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, var einnig viðstaddur fundinn og brýndi fyrir almenningi að huga að persónubundnum sóttvörnum. Þeir sem geta eigi að vinni heima og bað hann þess að fólk úti í samfélaginu sýni hverju öðru tillitsemi. Hann sagði skiljanlegt að fólk væri orðið hundleitt á veirunni en að með samstilltu átaki myndi ástandið batna hraðar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina