SA fái 25 milljarða en hjálparsamtök 25 milljónir

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Arnþór

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í ræðu sinni í umræðum um setningarræðu forsætisráðherra að hún hefði aldrei séð viðlíka hagsmunagæslu í þágu ríkra og í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hún sagði að fátækasta fólkið á Íslandi hefði gleymst og að ræður annarra ræðumanna væru „kosningaræður.“

„Ágætt að hafa hjól atvinnulífsins í gangi, [...] en þarf líka að huga að þeim sem hjálp þurfa á að halda,“ sagði Inga.

Hún segir að Samtök atvinnulífsins hafi farið í „fýlu“ og náð að draga 25 milljarða úr ríkisstjórninni á einum degi þegar hjálparstofnanir sem hjálpa þeim sem minna mega sín á Íslandi fengu 25 milljónir, og var þeim skipt á milli níu mismunandi hjálparstofnana.

Mikil fátækt á vakt Vinstri grænna

Inga Sæland sagði það óboðlegt að á Íslandi þyrfti fólk að bíða í röð til þess að geta fengið mat að borða – og það á vakt Vinstri grænna. 

Hún sagði jafnframt að Flokkur fólksins ætlaði að standa vörð um málefni fátækra og þeirra sem þurfa á hjálp á halda. Inga segir það að „ráðast í aðgerðir“ fela í sér að hjálpa öllum og sérstaklega þeim sem þurfa á hjálp að halda, ekki bara þeim sem „eiga.“

Koníakskall

Inga gagnrýndi fyrri ræðumenn, Katrínu Jakobsdóttur og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrir að eyða tíma sínum í vísanir um franska heimspekinginn Albert Camus. Sagði Inga Camus vera einhvern „koníakskall“ og var þá líklega að vísa til samnefnds koníaksframleiðanda, sem þó er alfarið ótengdur heimspekingnum franska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert