Smit hjá starfsmanni Hlöllabáta: Loka í viku

Hlöllabátar í Smáralind.
Hlöllabátar í Smáralind. Ljósmynd/Aðsend

Upp er komið smit hjá starfsmanni á Hlöllabátum í Smáralind. Í samráði við rakningarteymi almannavarna var ákveðið að senda alla starfsmenn Hlöllabáta í Smáralind í sóttkví og þvi eru Hlöllabátar í Smáralind lokaðir næstu sjö daga. Þetta kemur fram í tilkynningu en þar segir jafnframt: 

„ Í ljósi góðra aðstæðna og ferla innan Hlöllabáta er stefnt að því að opna að viku liðinni. Hlöllabátar þakka gott samstarf við rakningarteymið og gott er að finna hversu vel er haldið á málum hjá sóttvarnarlækni.“ 

Í upphafi faraldurs gáfu Hlöllabátar öllum starfsmönnum Landspítala og lögreglu fría Hlöllabáta sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag.

„Teljum við nú fulla ástæðu til þess að bjóða starfsmönnum Íslenskrar erfðagreiningar og rakningarteyminu öllu sem sinnt hefur mikilvægu starfi í baráttunni gegn þessum vágesti fría Hlöllabáta næstu vikuna. Þó ekki verði hægt að nálgast þá báta í Smáralind verður opið á Höfðabakka og á Barion í Mosfellsbæ“, segir í tilkynningu.

„Með þessu litla framlagi okkar vonum við að fólkið sem sinnir mikilvægu starfi í framlínunni finni þakklætið fyrir þeirra störf. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá stöndum við öll saman í þessari baráttu. Hlöllabátar geta gert þetta með aðkomu þeirra góðu birgja sem félagið vinnur með, en þeir leggja sitt af mörkum til að hægt sé að þakka framlínunni með þessum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert