Staðfestir ákvörðun um Teigsskóg

mbl.is/Helgi Bjarnason

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest ákvörðun sveitastjórnar Reykhólahrepps um að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðarvegi um Teigsskóg. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir ákvörðunina mikið gleðiefni. 

Úrskurðarnefndin segir sveitastjórnina hafa fært fram rök fyrir því að þeir samfélagslegu hagsmunir sem hafi í för með sér aukið umferðaröryggi vegfarenda feli í sér brýna nauðsyn. Það séu almannahagsmunir og margir kostir hafi verið skoðaðir áður en ákvörðun var tekin. 

„Í dag er gleðidagur, úrskurðarnefndin hefur kveðið upp sinn dóm skýrt og skorinort. Stöðvun á framkvæmdir í gegnum Teigsskóg er aflétt. Vegagerðin hyggst bjóða út þverun Þorskafjarðar í haust og hefja framkvæmdir í vetur. Þetta er verk upp á 2,5-3 ár. Samhliða verður unnið að öðrum köflum verksins þannig að verklok ættu að geta orðið 2024,“ skrifaði Sigurður Ingi á Facebook. 

Tvær kærur bárust vegna framkvæmdaleyfisins, önnur frá Landvernd og landeigendum að Hallsteinsnesi og Gröf en hin frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Fuglaverndarfélagi Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert