Stefnumál ríkisstjórnarinnar „fáránleg“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld að stefnumál ríkisstjórnarinnar eins og þau birtast nú við lok þessa kjörtímabils séu fáránleg. Hann nefnir í því skyni lögleiðingu fíkniefna, sameiningu sveitarfélaga, bann við „lækningu“ intersex-fólks og útþenslu báknsins.

„Sú stefna sem ríkisstjórnin kynnir nú í lok kjörtímabilsins [...] hún er absúrd, hún er fáránleg.

Þar heldur áfram hin endalausa runa kerfismála sem flest snúast um að sýna að Ísland sé þægasti krakkinn á upptökuheimili Evrópusambandsins. En að því marki sem ríkisstjórnin sýnir pólitískar áherslur, nú við lok kjörtímabilsins, skortir mann orð til að lýsa nægri undrun á því hvert þessi ríkisstjórn stefnir," sagði Sigmundur í kvöld.

Ríkisstjórnin ætli að banna „lækningar“ á intersex-fólki

Sigmundur segir að það sé fáránlegt að ríkisstjórnin ætli sér að banna foreldrum og heilbrigðisstarfsfólki að „lækna“ intersex-börn. Þeir sem eru intersex eða með ódæmigerð kyneinkenni eru samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni einstaklingar sem sýna ýmist bæði einkenni karlkyns og kvenkyns.

Forsætisráðherra talaði um í setningarræðu sinni að ríkisstjórnin ætlaði að bæta lagaumhverfi utan um aðgerðir á þessum hópi fólks til þess að bæta réttindi hinsegin fólks. 

„Börn geta fæðst með ýmis konar fæðingargalla. Stundum er ekkert við því að gera, en sem betur fer gera nútíma vísindi okkur kleift að bæta úr mörgum þeirra. Nú er lagt til að óheimilt verði að gera aðgerðir til að lagfæra, lækna, ákveðin líffæri, eða það sem kallað er ódæmigerð kyneinkenni. Það á við um 1,7% barna samkvæmt gögnum ráðuneytisins,“ sagði Sigmundur um þessi áform ríkisstjórnarinnar.

Fleiri furðumál

Sigmundur gagnrýndi einnig fleiri „furðumál“ sem ríkisstjórnin ætlar sér að veita athygli sína og vinna að breytingum á. 

„Hún [ríkisstjórnin] boðar lögleiðingu fíkniefna, hvorki meira né minna, en virðist í staðinn ætla að beita sér gegn nikótínpúðum og rafrettum.

Gerð verður önnur tilraun til að vega að starfi íslenskra leigubílstjóra á sama tíma og þeir hafa orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu án þess að fá mikla aðstoð.

Nú á að rústa íslenskri nafnahefð sem hefur varðveist frá landnámi þar til þessi ríkisstjórn kom til.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki gleymt áformum sínum um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga. Það gefst ekki tími til að fara yfir öll furðumálin sem bíða okkar,“ sagði Sigmundur.

Miðflokkurinn sé svarið

Sigmundur gagnrýndi einnig fjölgun aðstoðarmanna ráðherra og annarra starfsmanna ríkisstjórnarinna, sáttmáli hverrar kveður á um eflingu Alþingis. 

„Báknið þenst áfram út eins og sést best á ríkisstjórninni sjálfri. Útgjöld forsætisráðuneytisins hafa aldrei aukist eins hratt og í tíð þessarar ríkisstjórnar og engin ríkisstjórn hefur ráðið viðlíka fjölda aðstoðarfólks og bætt í framkvæmdavaldið eins og þessi ríkisstjórnin sem sagðist mynduð um eflingu Alþingis.

Þetta þarf ekki að vera svona, það er annar valkostur, og það munu þingmenn Miðflokksins sýna nú á nýju þingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina