Þingmenn mættir í messuna

Þingmenn ganga ásamt biskup og forseta til Dómkirkjunnar.
Þingmenn ganga ásamt biskup og forseta til Dómkirkjunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþingi verður sett í dag og hófst þingsetningarathöfnin með guðsþjónustu í Dómkirkjunni nú klukkan hálf tvö. Þingmenn gengu yfir í Dómkirkjuna ásamt biskup á öðrum tímanum í dag. 

Séra Ninna Sif Svavarsdóttir, sóknarprestur í Hveragerði og formaður Prestafélags Íslands, predikar og séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Dómorganistinn Kári Þormar leikur á orgel og Guðbjörg Hilmarsdóttir syngur við athöfnina. 

Vegna kórónuveirufaraldursins verður aðeins örfáum gestum boðið til þingsetningarinnar að þessu sinni. 

Fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp aðal málið

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins. Þingsetningin hefst klukkan 14:05.

Strengjadúett skipaður þeim Auði Hafsteinsdóttur fiðluleikara og Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara leikur „Intermezzo“ úr Dimmalimm eftir Atla Heimi Sveinsson. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 151. löggjafarþing. Þá leikur strengjadúettinn „Eg vil lofa eina þá“ eftir Báru Grímsdóttur. Að því loknu flytur forseti Alþingis ávarp.

Þingsetning Alþingis 1. október 2020. Þingmenn ganga til Dómkirkjunnar.
Þingsetning Alþingis 1. október 2020. Þingmenn ganga til Dómkirkjunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 16:00 en þá verður hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 útbýtt.

Hljóðútsending verður frá messu og sjónvarpsútsending frá þingsetningarfundi á sjónvarpsrás og vef Alþingis.  

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða að kvöldi þingsetningardags, kl. 19:30.

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp 2021 og fyrri umræða um fjármálaáætlun verða aðalmál 2. viku þingsins og hefst umræðan mánudaginn 5. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert