Þjóðverjar setja Ísland á rauðan lista

AFP

Þýskaland bættist í hóp þeirra ríkja sem hafa skilgreint Ísland sem áhættusvæði en í gær birtu þýsk yfirvöld uppfærðan lista yfir lönd sem eru á rauðum lista. Ísland er þar á meðal. 

Aðeins fjórar flugferðir eru á áætlun frá Keflavíkurflugvelli í dag. Tvær vélar EasyJet eru farnar, önnur til Luton-flugvallar í London og hin til Manchester. Vél Icelandair til Alicante er að fara í loftið og er það eina flug Icelandair frá Íslandi í dag. EasyJet flýgur til Edinborgar eftir hádegi og Lufthansa flýgur til Frankfurt á þriðja tímanum. 

Alls voru 11 ríki Evrópu sett á rauðan lista í gær. Áður var hluti Belgíu á rauða listanum en nú er allt landið skilgreint sem áhættusvæði er kemur að kórónuveirunni.

Sama á við um Frakkland fyrir utan Grand Est-hérað. Wales og Norður-Írland bættust einnig á listann sem og Eistland, Írland, Litháen, Rúmenía, Slóvenía, Ungverjaland og Króatía.

Þjóðverjar miða við 50 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu sjö daga.

Á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu er Ísland enn í sjöunda sæti yfir flest ný smit síðustu 14 daga á hverja 100 þúsund íbúa. Spánn er með flest smit eða 330,2, Tékkland er með 271,8, Frakkland 232,2 og Holland 189,3. Lúxemborg er með 186,8 smit á hverja 100 þúsund íbúa, Belgía 175,2 og Ísland 145,9.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert