Tveggja hæða yfirbyggð hjólastæði við HR

Nýju hjólastæðin við Háskólann í Reykjavík eru inni í glerskála …
Nýju hjólastæðin við Háskólann í Reykjavík eru inni í glerskála sem er 60 fermetrar að stærð. Verður hann aðgangsstýrður og með myndavélum. Ljósmynd/Anna Ingólfsdóttir

Þessa dagana er unnið að því að koma í gagnið nýrri aðstöðu fyrir reiðhjól við Háskólann í Reykjavík fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Verður aðstaðan aðgangsstýrð og með öryggismyndavélum. Hingað til hafa nemendur aðeins getað geymt hjól sín utandyra án mikils eftirlits og er því um mikla bót að ræða fyrir þá sem kjósa að koma á reiðhjólum í skólann.

Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður samskipta HR, segir í samtali við mbl.is stefnan sé á að opna hjólastæðin um miðjan október, en þó að húsið sjálft sé risið á enn eftir að tengja rafmagn, setja upp aðgangsstýringu og myndavélar.

Í skýlinu verða stæði fyrir 80 hjól, en geymslugrindirnar eru …
Í skýlinu verða stæði fyrir 80 hjól, en geymslugrindirnar eru á tveimur hæðum. Ljósmynd/Anna Ingólfsdóttir

Um er að ræða 60 fermetra hús með plássi fyrir 80 hjól, en þau verður hægt að geyma á tveimur hæðum. Er ekki um ósvipað fyrirkomulag að ræða og sjá má víða erlendis þar sem samgönguhjólreiðar hafa notið mikilla vinsælda, meðal annars í Hollandi og Danmörku. Eiríkur segir að kerfið sé hannað af Arkís og smíðað af Jáverki, en svipað kerfi er einnig að finna á nemendagörðum HR við Öskjuhlíðina. Þá er þó ekki um að ræða sérstakt hús, heldur er geymslukerfið í sömu byggingum og nemendagarðarnir sjálfir.

Eiríkur segir að ráðist hafi verið í þetta verkefni að óskum nemenda, en fyrir gátu þeir sem fyrr segir aðeins geymt hjól sín utandyra og án þess að neitt eftirlit væri með þeim. Segist Eiríkur vona að þetta skref muni auðvelda bæði nemendum og starfsfólki að nota vistvæna ferðamáta við samgöngur til og frá skólanum.

Skálinn stendur fyrir framan aðalinngang Háskólans í Reykjavík, en vonast …
Skálinn stendur fyrir framan aðalinngang Háskólans í Reykjavík, en vonast er til þess að hann auðveldi nemendum og starfsfólki að nýta sér vistvæna samgöngumáta. Ljósmynd/Anna Ingólfsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert