„Við höfum séð það svartara“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands við þingsetningu Alþingis.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands við þingsetningu Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi um áhrif heimsfaraldurs á Íslendinga, breytingar á stjórnarskrá og ábyrgð þingmanna í þingsetningarræðu sinni á Alþingi í dag. Hann gerði tilraun til að uppörva þjóðina á tímum heimsfaraldurs og vitnaði í söngvarann Helga Björns. 

Guðni minntist þess að þegar hann setti þingið fyrir ári síðan óraði engan fyrir því sem koma skyldi. „Þá hafði veiran skæða ekki látið á sér kræla. [...] Nú mótar farsóttin líf okkar að miklu leiti.“ sagði Guðni og fór yfir neikvæða afleiðingar faraldursins, andlát, veikindi, atvinnuleysi, andlega vanlíðan o.s.frv. 

„Án aðgerða hefðum við þó flotið að feigðarósi. Við völdum að vernda líf og heilsu almennings eftir bestu getu. Nú varðar miklu að fólk sýni áfram þrautseigu, æðruleysi og þor,“ sagði Guðni sem benti á að yngri kynslóðir mættu læra af þeim eldri. „Þeim sem hafa reynt sitthvað á langri ævi og láta ekki hvað sem er koma sér úr jafnvægi.“

Samstaða geti leitt til kyrrstöðu

Þá þakkaði Guðni heilbrigðisstarfsfólki, starfsfólki skólakerfisins, starfsfólki verslunar og þjónustu og fleirum sem hafa látið til sín taka í „þjóðarþágu“. 

Guðni sagði að þó samstaða væri mikilvæg á þessum erfiðu tímum og hún gæti verið kraftmikið hreyfiafl gæti hún einnig leitt  til kyrrstöðu. Því giltu enn orð hans frá síðustu þingsetningu um að ágreiningur einkenndi öflugt þing og öflugt samfélag. Best væri að beita rökum og forðast fals.

Guðni Th. Jóhannesson forseti og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis.
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stjórnarskrá verður aldrei meitluð í stein“

Þá ræddi Guðni um stjórnarskrána og breytingar á henni. Hann sagði ábyrgð þingsins hvað hana varðar mikla. 

„Vart verður því haldið fram með gildum rökum að þegar stjórnarskránni var síðast breytt undir lok síðustu aldar hafi verkið verið fullkomnað,“ sagð Guðni og bætti við: „Ætíð er verk að vinna. Stjórnarskrá verður aldrei meitluð í stein.“

Guðni sagði mikilvægt að þingmenn geti tekið þær tillögur sem fram koma um breytingar á stjórnarskra til efnislegrar afgreiðslu. „Vangeta gæti jafnvel talist þinginu til vansa.“

Auðæfi og auðlindir Íslendinga

Í lok ræðu hvatti forsetinn þingið og landsmenn alla til dáða. „Vissulega eru blikur á lofti í þjóðlífinu en við höfum séð það svartara,“ sagði Guðni. Hann hvatti fólki til að njóta þess að meginstoðir samfélagsins séu traustar og vitnaði í því skyni í lag söngvarans Helga Björns, „Það bera sig allir vel“.

„Við eigum auðlindir til sjávar, sveitar og heiða, að ekki sé minnst á auðæfi hugar og handar. Við skulum því bera okkur vel þó úti séu stormur og él.“

mbl.is