209 konur boðaðar í skoðun

Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins - Krabbameinsfélagið.
Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins - Krabbameinsfélagið. mbl.is/Árni Sæberg

Endurskoðun sýna í kjölfar alvarlegs atviks á leitarstöð Krabbameinsfélagsins er lokið. Endanlegur fjöldi endurskoðaðra sýna reyndist nokkuð minni en áætlað var í upphafi, eða 4.950.

Í 209 tilfellum var ákveðið að kalla konur inn til frekari skoðunar, eða í 4,2% tilfella. Endanleg niðurstaða þeirra skoðana mun ekki liggja fyrir fyrr en að nokkrum vikum liðnum. Þetta kemur fram í frétt á vef Krabbameinsfélagsins. 

„Upphaf málsins má rekja til alvarlegs atviks á leitarstöð árið 2018 sem upp kom í sumar. Atvikið var þá tilkynnt til Embættis landlæknis og ráðist í að endurskoða fjölda sýna þrjú ár aftur í tímann. Áætlað var að endurskoða þyrfti 6.000 sýni en þau reyndist á endanum rétt tæplega 5.000. 

Krabbameinsfélagið harmar hið alvarlega atvik sem varð á leitarstöðinni. Embætti landlæknis vinnur nú að úttekt á því, sem og gæðaúttekt á starfsemi leitarstöðvar. Félagið vinnur með embættinu að úttektinni,“ segir í tilkynningu.

Alþjóðlegar rannsóknir sýna að skimun fyrir leghálskrabbameini veitir ekki fullkomna vernd gegn krabbameinum. Skimun nær aldrei að greina öll tilfelli þar sem hætta er á að krabbamein geti myndast. Hins vegar má fækka dauðsföllum af völdum leghálsskimana um 90% með reglubundinni skimun. Þátttaka í skimun er því afar mikilvæg, segir á vef Krabbameinsfélagsins.

Bólusetning unglingsstúlkna gegn leghálskrabbameini hófst á Íslandi árið 2011 og fyrsta árgangi bólusettra stúlkna verður boðið í skimun árið 2021. Bólusetningin getur komið í veg fyrir 75% tilfella ef hún er gefin nægilega snemma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert