772 milljarðar sundurliðaðir

Fjárlagafrumvarp ársins 2021 var birt í gær.
Fjárlagafrumvarp ársins 2021 var birt í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir að tekjur ríkisins á næsta ári verði 772 milljarðar króna, um 16 prósentum lægri en lagt var upp með í fjárlögum ársins 2020. Af þeim eru tekjur af sköttum, tryggingagjaldi og veiðigjaldi 715 milljarðar króna, en það sem upp á vantar kemur til vegna arðgreiðslna ríkisfyrirtækja, leigu- og vaxtatekna.

772 milljarðar jafngilda um 2,14 milljónum króna á hvert mannsbarn eða 180.000 krónum á mánuði og því ekki úr vegi að skoða nánar hvernig þessum peningum er aflað.

Áfengis- og tóbak jafndrjúg fjármagnstekjuskatti

Stærsti tekjustofn ríkisins er, sem fyrr, virðisaukaskattur en hann stendur undir 30,2% af tekjum ríkisins, um 233 milljörðum króna. Næstur er tekjuskattur einstaklinga, sem skilar 180,7 milljörðum. Tekjuskattur lögaðila skilar 55,2 milljörðum króna.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að tekjur af tryggingagjöldum verði tæpir 95 milljarðar króna, til samanburðar við 99,8 milljarða á fjárlögum 2020 (og 87 milljarða í endurskoðaðri áætlun fyrir 2020).

Aðrir skattstofnar blikna í samanburði og kann smæð þeirra í heildarsamhenginu að koma einhverjum á óvart. Þannig er áætlað að fjármagnstekjuskattur skili ríkinu 25,2 milljörðum króna, tæpum 3,3% af öllum tekjum. Er það eilítið minna en tekjur ríkisins af áfengis- og tóbaksgjaldi, sem verða á næsta ári 26,3 milljarðar króna. 

Þá er gert ráð fyrir að veiðigjald skili 5 milljörðum króna í ríkiskassann, tveimur milljörðum minna en í ár.

Enginn arður frá bönkunum

Flokkurinn „aðrar tekjur ríkisins“, sem hefur sem fyrr segir að geyma arðgreiðslur, leigu- og vaxtatekjur hins opinbera, verður fyrir miklu höggi milli ára. Gert er ráð fyrir að Landsvirkjun greiði ríkinu 4,75 milljarða króna í arð til samanburðar við 10 milljarða í ár. Þá er ekki gert ráð fyrir neinum arðgreiðslum frá ríkisbönkunum tveimur, Landsbanka og Íslandsbanka, en í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir 23 milljörðum þaðan.

Eins og áður hefur verið greint frá er gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs muni nema um 8,9% af landsframleiðslu á næsta ári, en í fréttaskýringu Kjarnans sem birtist í dag, segir að það sé langtum meiri halli en á öllum öðrum Norðurlöndum. Til samanburðar sé gert ráð fyrir 4,5% halla í Finnlandi, 1,3% í Svíþjóð og 0,5% í Danmörku.

mbl.is