Ekki gefið tilefni til endurskoðunar fleiri sýna

„Það virðist vera að ferlið þarna inn­an dyra hafi í …
„Það virðist vera að ferlið þarna inn­an dyra hafi í lang­an tíma ekki verið í lagi,“ sagði lögmaðurinn sem hefur málin á sínu borði í samtali við mbl.is í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Fyrirliggjandi athugun vegna málsins hefur ekki gefið tilefni til þess að skoða fleiri sýni en nú hafa verið endurskoðuð“, segir í svari Krabbameinsfélagsins við fyrirspurn mbl.is um það hvort til standi að endurskoða sýni úr leghálsskimun lengra aftur í tímann en nú hefur verið gert.

Tilefni fyrirspurnarinnar eru mál tveggja kvenna sem greindust með frumubreytingar í leghálsi árið 2013 en voru ekki látnar vita, að sögn lögmanns sem er með mál þeirra á sínu borði. Báðar greindust þær síðar með krabbamein. Önnur kvennanna er látin en hin þurfti að fara í legnám. 

Í morgun tilkynnti Krabbameinsfélagið að end­ur­skoðun sýna í kjöl­far al­var­legs at­viks á leit­ar­stöð félagsins væri lokið. End­an­leg­ur fjöldi end­ur­skoðaðra sýna reynd­ist nokkuð minni en áætlað var í upp­hafi, eða 4.950. Sýnin sem voru endurskoðuð ná ekki til ársins 2013. 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður sem er með ofangreind mál á sínu borði og ætlar að tilkynna þau til landlæknis, sagði í samtali við mbl.is í dag að málin gæfu til kynna að það þyrfti að fara í at­hug­un á eldri sýn­um hjá Krabba­meins­fé­lag­inu.

„Það virðist vera að ferlið þarna inn­an dyra hafi í lang­an tíma ekki verið í lagi,“ sagði Sævar.

Hvorki náðist í framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins né yfirlækni við vinnslu fréttarinnar og fengust þau svör frá Krabbameinsfélaginu að það tjáði sig ekki um einstök mál. Ekki hafa fengist svör við því hvaða verkferla sé gripið til ef ekki næst í konur sem greinast með frumubreytingar. Slíkar breytingar geta leitt til krabbameins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert