Greindist en var ekki látin vita

Sævar Þór Jónsson, lögmaður konunnar, hefur fengið fjölmörg mál sem …
Sævar Þór Jónsson, lögmaður konunnar, hefur fengið fjölmörg mál sem snerta Krabbameinsfélag Íslands inn á sitt borð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kona um þrítugt sem greindist með frumubreytingar í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu árið 2013 var ekki látin vita af breytingunum en frumubreytingar í leghálsi geta leitt til krabbameins. Konan greindist með krabbamein í legi tæpum tveimur árum seinna og þurfti að fara í legnám, að sögn lögmanns konunnar. Hún getur nú hvorki eignast börn, vegna legnámsins, né ættleitt börn, þar sem hún er í áhættuhópi.

Lögmaðurinn, Sævar Þór Jónsson, segir að annað svipað mál sé á borði hans en þar er um að ræða mál konu sem er látin úr krabbameini. Krabbameinsfélagið hafi fundið frumubreytingar í sýni hennar en ekki látið konuna vita.

Tvö mál hafa bæst við þau sex mál sem verða send til landlæknis vegna meintra mistaka Krabbameinsfélagsins.

„Þessi tvö mál varða konur sem telja að þær hafi fengið ranga greiningu eða það hafi ekki verið unnið rétt úr þeirra greiningum sem hafi síðan orðið til þess að þær hafi orðið fyrir verulegu tjóni. Þetta eru mál sem varða sýnatökur árið 2013, ekki 2018,“ segir Sævar sem telur að endurskoðun Krabbameinsfélagsins á sýnum hafi ekki verið nægilega víðtæk og skoða þurfi eldri sýni en nú þegar hefur verið gert.

Sýnin sem hafa verið endurskoðuð eru frá árunum 2016-2020. Í morgun var tilkynnt að endurskoðun sýna væri lokið. 

„Annað þessara tveggja mála varðar unga konu sem fór í sýnatöku 2013. Það mál er svipað máli konu sem fór í sýnatöku árið 2013 og er nú látin. Báðar konurnar greidust með frumubreytingar en það var ekki unnið rétt úr greiningunni.“

Þurfti að fara í legnám um þrítugt

Unga konan flutti til Danmerkur skömmu eftir sýnatökuna.

„Um það bil tveimur árum síðar veiktist hún og fór á spítala í Danmörku. Þar kemur í ljós að hún var komin með krabbamein og þyrfti að fara í legnám. Hún var þá bara rétt um þrítugt,“ segir Sævar.

Þegar konan heyði af þeim mistökum sem höfðu orðið við greiningu sýna hjá Krabbameinsfélaginu úr leghálsi fjölda kvenna hafði konan samband við Krabbameinsfélagið og bað starfsmann um að kanna hvort hún hafi greinst með frumubreytingar árið 2013.

„Þá kemur í ljós að það voru frumubreytingar í því. Hún hefði þá með réttu átt að fara í frekari athugun en það var ekki gert. Hún spyr hvers vegna og þá fær hún þau svör að það hafi ekki náðst á hana. Þetta er náttúrulega alvarlegt tilvik og ef ekki næst í einstakling í síma til að kalla hann inn í frekari athugun hefði ég haldið að einhverjum frekari aðferðum eða leiðum yrði beitt til þess að kalla viðkomandi í frekari athugun. Það virðist ekki hafa verið gert svo þetta mál er af sama meiði og önnur mál sem ég er með frá árinu 2013,“ segir Sævar.

„Þetta mál gefur til kynna að það þurfi að fara í athugun á eldri sýnum hjá Krabbameinsfélaginu. Það virðist vera að ferlið þarna innan dyra hafi í langan tíma ekki verið í lagi.“

4-5 málanna varða látnar konur

Konur eiga almennt að fara í leghálsskoðun á tveggja til þriggja ára fresti eftir tvítugt. Spurður hvort nauðsynlegt sé þá að skoða sýni sem séu eldri en tveggja til þriggja ára, þar sem konur sem eigi sýni sem séu eldri séu væntanlega búnar að koma aftur í skoðun segir Sævar að mögulega hafi verið gerð mistök við greiningu sýna hjá konum sem séu látnar úr krabbameini í dag. Þau sýni geti verið eldri en fjögurra ára gömul.

„Það þarf að fara í gegnum þessa verkferla sem hafa verið í gangi yfir lengra tímabil. Auk þess að málefni látinna einstaklinga verði líka skoðuð.“

4-5 þeirra átta mála sem Sævar ætlar eða hefur nú þegar tilkynnt til Landlæknis snerta konur sem eru fallnar frá vegna krabbameins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert