„Ómögulegt að segja hvenær þessu lýkur“

Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins.
Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Úttekt á alvarlegum atvikum sem hafa komið inn á borð embættis landlæknis vegna mistaka við greiningu leghálssýna hjá Krabbameinsfélagi Íslands mun taka „sinn tíma“, að sögn aðstoðarmanns landlæknis. 

„Málið er í nokkuð hefðbundnum farvegi. Við erum bæði að kanna alvarlegu atvikin og að gera úttekt á gæðamálum. Könnun á atvikunum mun taka sinn tíma,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, spurður um stöðuna á úttekt á starfsemi Krabbameinsfélagsins.

„Við erum í reglulegum samskiptum við Krabbameinsfélagið til þess að heyra hvernig þeim gengur í þessu og svo að tryggja að við fáum einhvern erlendan aðila eða erlenda aðila til að koma að þessari úttekt líka, sérstaklega með tilliti til sýnanna. Það er ómögulegt að segja hvenær þessu lýkur og þá sérstaklega athugunum á þessum alvarlegu atvikum.“

Sævar Þór Jónsson, lögmaður nokkurra kvenna sem telja að Krabbameinsfélagið hafi gert mistök við greiningu eða eftirfylgni greiningar leghálssýna þeirra, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að miðað við stöðuna í dag verði allt í allt átta mál tilkynnt til landlæknis. Nokkur þeirra eru nú þegar á borði landlæknis. 

mbl.is