Undarleg vegferð að lækka fjármagnstekjuskatt

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, segir það undarlega vegferð hjá ríkisstjórninni að ráðast í lækkun fjármagnstekjuskatts nú þegar hver króna skiptir sköpum í ríkisrekstri.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði endurskoðun á fjármagnstekjuskatti er hann kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs í gær. Útfærslan hefur ekki verið kynnt opinberlega, en Bjarni sagði að horft yrði til þess að skattleggja raunávöxtun í stað nafnávöxtunar, þ.e. að aðeins yrðu skattlagðar fjármagnstekjur umfram verðbólgu. Gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur skili ríkinu 25,2 milljörðum króna á næsta ári, eða 2,1 milljarði minna en ef kerfinu yrði haldið óbreytt.

„Það sem er þó gott er að í frumvarpinu er viðurkennd ákveðin viðhorfsbreyting í þá átt að beita þurfi ríkisfjármálum af meiri krafti í kreppu,“ segir Drífa og vísar til þess að ríkisútgjöld séu ekki skorin niður ólíkt því sem gert var eftir bankahrun. Þess í stað er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með halla út árið 2025.

Drífa segir að greining standi nú yfir hjá ASÍ á því hversu mikið er sett í hin ýmsu virkniúrræði í frumvarpinu, en þau skipti höfuðmáli til að koma fólki aftur inn á vinnumarkað, og landinu úr kreppu.

Þá sýnist henni ekki gert ráð fyrir nægilegu fé í atvinnuleysisbætur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 49 milljörðum króna í atvinnuleysisbætur, eða 23 milljörðum meira en gert var í gildandi fjárlögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert