Þörf á hertum aðgerðum

Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Almannavarnir

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir ljóst að þörf sé á hertum aðgerðum til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Í gær greindist 61 smit og segir Víðir að hugsanlega sé faraldurinn í veldisvexti.

Minnisblað sóttvarnalæknis með tillögum um hertar sóttvarnaaðgerðir verður sent til heilbrigðisráðherra í dag og segir Víðir það í höndum ráðuneytisins að ákveða hvort þær tillögur verði að veruleika.

Enginn upplýsingafundur almannavarna verður haldinn í dag en Víðir segir að ef komi til hertra aðgerða verði útfærsla þeirra aðgerða kynnt fljótlega.

„Ég held að það sé ljóst núna að við séum hugsanlega á þeim stað að orðið hafi einhver veldisvöxtur í þessum faraldri. Við höfum verið að brýna fyrir fólki að huga að persónubundnum sóttvörnum og reynt að herða ekki aðgerðir nema brýna nauðsyn beri til. Nú virðist ljóst að það dugir ekki til þess að hefta útbreiðslu.“

Sjúkrahúsinnlagnir munu aukast

Víðir segir jafnframt ljóst að ef fram haldi sem horfi muni margir leggjast inn á sjúkrahús og öllum megi vera ljósar afleiðingarnar sem það hafi í för með sér.

„Með þessu áframhaldi vitum við hvað gerist. Það munu jafnvel fleiri þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Svo vitum við til þess að margir sem eru í umsjón lækna á Covid-göngudeildinni eru nokkuð veikir þannig að það er útlit fyrir enn fleiri sjúkrahúsinnlagnir,“ segir Víðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert