Allt miðstig í Norðlingaskóla í sóttkví

Norðlingaskóli.
Norðlingaskóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Allir 200 nemendur á miðstigi í Norðlingaskóla, auk 21 kennara, hafa verið sendir í sóttkví eftir að nemandi á miðstiginu greindist með kórónuveiruna. Þetta staðfestir Aðalbjörg Ingadóttir skólastjóri í samtali við mbl.is.

Um er að ræða fimmta til sjöunda bekk, en miðstigið er í sérhúsnæði og því var ákveðið að senda alla þá nemendur í sóttkví sem þar höfðu verið.

Aðalbjörg segir að horft sé til þess að dagarnir 30. og 31. september séu undirliggjandi og því er miðað við að nemendurnir verði skimaðir næsta fimmtudag. Þá mun koma í ljós hvert framhaldið verður.

Tilkynning um smitið barst skólastjórnendum í gærmorgun að sögn Aðalbjargar, en ákvörðun um aðgerðir var tekin í samráði við smitrakningarteymið.

Samtals eru um 600 nemendur í Norðlingaskóla, en yngri og eldri bekkirnir eru í aðalbyggingu skólans og þurfa ekki að fara í sóttkví.

Þetta er ekki eina tilfellið um helgina þar sem greint hefur verið frá því að fjöldi barna þurfi að fara í sóttkví, en 600 börn í Sunnulækjarskóla eru komin í sóttkví. Þá greindist starfsmaður við Helgafellsskóla í Mosfellsbæ með smit og þurfa öll börn í skólanum að fara í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert