Upplýsingafundirnir nú á nýjum tíma

Upplýsingafundir almannavarna verða nú á nýjum tímum.
Upplýsingafundir almannavarna verða nú á nýjum tímum. Ljósmynd/Lögreglan

Upplýsingafundir almannavarna verða nú haldnir á nýjum tíma, klukkan 11 fyrir hádegi í stað klukkan 14. Þá verða reglulegir fundir á mánudögum og fimmtudögum.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir þetta hafa verið gert til þess að geta annað þeirri eftirspurn eftir upplýsingum sem skapast um leið og tölur dagsins yfir ný tilfelli kórónuveirunnar eru birtar klukkan 11 dag hvern.

„Þetta er nokkuð sem við gerðum í samræðum við þá fjölmiðla sem eru í mestum samskiptum við okkur. Það er alltaf gríðarleg eftirspurn eftir upplýsingum þarna strax klukkan 11 og því vildum við breyta þessu á þann veg,“ segir Víðir í samtali við mbl.is

„Einnig hentar þessi nýja tímasetning betur fyrir okkur sem erum að vinna í þessum Covid-málum öllum dag hvern. Við fundum stíft yfirleitt eftir hádegi um stöðuna hvern dag og því hentaði þessi tímasetning betur.“

Vilja ná smitum niður á landsvísu

Víðir segir að það hafi verið skoðað að skipta aðgerðum eftir landshlutum við ákvörðun nýrra og hertra aðgerða sem taka gildi á miðnætti. Hann segir þó að markmiðið sé að ná smitum niður á landsvísu og það kalli á hertar aðgerðir á öllu landinu.

„Við skoðuðum alveg að skipta þessu niður eftir landshlutum, þ.e.a.s. að það yrðu mögulega hertar aðgerðir á einum stað en rýmri annars staðar. Niðurstaðan var hins vegar sú að staðan núna kallaði á aðgerðir á öllu landinu.

Það er vissulega rétt að það séu til að mynda færri smit á Norður- og Austurlandi en sú staða getur breyst hratt og við viljum ekki að það gerist. Þessi veira er lúmsk og við viljum vera með eins góða stjórn á aðstæðum og hægt er, án þess að valda of miklu samfélagslegu raski. Það gerum við með þessum hertu aðgerðum um allt land.“

Litakóðun gæti reynst vel

Víðir segir jafnframt að vel megi vera að nýtt litakóðunarkerfi almannavarnadeildar gæti nýst til þess að meta alvarleika faraldursins eftir landshlutum. Það myndi þýða að höfuðborgarsvæðið væri kannski appelsínugult eða rautt en aðrir staðir á landinu væru gulir eða grænir ef staðan þar væri ekki eins alvarlegt – ekki ósvipað litakóðunarkerfi veðurviðvarana Veðurstofu Íslands.

„Jú, það má vel vera að þessi litakóðun gæti gagnast eitthvað. Við erum með það til skoðunar að beita henni með einhverjum hætti en eins og ég segi, þá er það bara til skoðunar og ekkert verið ákveðið með það að svo stöddu,“ segir Víðir.

Víðir Reynisson segir að staða farladursins tali sínu máli. Fólk …
Víðir Reynisson segir að staða farladursins tali sínu máli. Fólk verði að sýna hverju öðru tillitsemi ef árangur á að nást í braráttunni við veiruna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áskorun að skoða hvað megi gera betur

Spurður hvort almenningur taki faraldurinn ekki nægilega alvarlega segir Víðir að vel geti verið að sóttvarnayfirvöld standi sig ekki nógu vel í að koma skilaboðum sínum um alvöru stöðunnar til skila. Fréttablaðið greindi frá því í gær að mannmergð hefði verið á nammibarnum í verslun Hagkaupa þar sem sóttvarnareglur voru virtar að vettugi.

„Skiljanlega er fólk þreytt á þessu ástandi og það erum við öll. Ef fólk er hins vegar að gleyma sér og ekki taka það sem við segjum nægilega alvarlega þá er eitthvað af því sem við erum að gera ekki gert nægilega vel. Það er áskorun fyrir okkur að skoða rækilega hvernig við getum betur komið því til skila að staðan hér á landi sé alvarleg. Annars finnst mér staðan á Landspítalanum, staðan á smitfjöldanum og staðan á faraldrinum almennt tala sínu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert